Helgi Steinar Gunnlaugsson
helgisteinar@frettabladid.is
Fimmtudagur 5. janúar 2023
05.00 GMT

Sænska ríkis­stjórnin hefur heimilað fækkun í úlfa­stofni landsins um allt að helming. Náttúru­verndar­sinnar segja á­kvörðunina einungis byggjast á eftir­spurn veiði­manna. For­maður Náttúru­verndar­sam­taka Ís­lands segir þetta dæmi um við­kvæmni sænskra yfir­valda gagn­vart kröfum bænda.

Veiði­menn í Sví­þjóð hafa fengið leyfi til að fella 75 úlfa í landinu í þessum mánuði. Úlfa­stofninn í landinu er talinn saman­standa af í kringum 365 dýrum en sænska þingið hefur heimilað fækkun þeirra niður í 170. Sú tala er rétt innan lág­marks­verndar­krafna Evrópu­sam­bandsins.

Sam­kvæmt dag­blaðinu The Guar­dian héldu í kringum 200 sænskir veiði­menn út í skóg­lendið á milli Gäv­le­borg og Dalarna á mánu­daginn, á fyrsta veiði­degi. Veiði­ferðin bar engan árangur en veiði­hundar þeirra náðu hins vegar að þefa uppi nokkur úlfagreni.

Um­ræðan um úlfa er mjög um­deild bæði í Sví­þjóð og Noregi á milli náttúru­verndar­sinna og bænda og skot­veiði­manna. Veiði­menn segja það nauð­syn­legt að hægja á út­breiðslu úlfsins og að stofninn sé sá stærsti sem sést hefur í nú­tíma­sögu Sví­þjóðar. Að sama skapi hafa bændur kvartað yfir á­rásum úlfa á sauð­fé og segjast vera sam­mála stefnu stjórn­valda.

Anna-Caren Sat­her­berg, land­búnaðar­ráð­herra Sví­þjóðar ræðir við landbúnaðarráðherra Spánar Luis Planas Puchades.
Mynd/getty

Anna-Caren Sat­her­berg, land­búnaðar­ráð­herra Sví­þjóðar, sagði í maí í fyrra að úlfa­stofn landsins hefði stækkað með hverju ári og að tryggja þyrfti fækkun þeirra niður í á­sættan­legri tölu sem á­kveðin yrði af sænska þinginu.

Anna sagði ekki hversu stór úlfa­stofninn ætti að vera að hennar mati. Hún viður­kennir að Svíar þurfi að standast skuld­bindingar ESB um verndun dýra í út­rýmingar­hættu en styður samt fólkið sem þarf að búa í ná­grenni við úlfa, eða hræðist þá, og bændur sem hafa þolað bú­sifjar af þeirra völdum.

Hópur vísinda­manna frá nokkrum evrópskum há­skólum skrifaði ný­lega grein í tíma­ritið Science þar sem á­kvörðun sænsku ríkis­stjórnarinnar var gagn­rýnd og sögð ekki byggjast á neinum vísinda­legum stað­reyndum.

„Það er margt ó­fyrir­sjáan­legt þegar kemur að villtu stofnunum og 170 dýr eru ein­fald­lega allt of fá. Við þurfum líka að huga að erfða­fræði úlfa. Því minni sem úlfa­stofninn er, því meiri líkur eru á sveiflum í erfða­mengi þeirra,“ segir Benny Gäfwart, rán­dýra­sér­fræðingur hjá World Wide Fund for Nature.

Mynd/GraphicNews

Veiði­manna­sam­fé­lag

Veiði hefur verið stunduð í Sví­þjóð síðan á 13. öld og er mjög rót­gróin í sænskri menningu. Einn af hverjum 39 Svíum skil­greinir sig sem veiði­maður og þurfa þeir einungis að greiða í kringum fjögur þúsund krónur á ári í veiði­gjöld.

Veiðar eru engu að síður um­deildar í Sví­þjóð og segja sænskir náttúru­verndar­sinnar að hags­muna­sam­tök veiði­manna hafi mjög sterk tengsl við stjórn­mála­öfl í landinu. Þeir segja að veiði­menn beiti stjórn­mála­menn miklum þrýstingi til að auka veiði­heimildir á fleiri dýra­tegundum.

Mari­e Stegard, for­maður fé­lagsins Jakt­k­riti­kerna, sem gagn­rýnir veiðarnar, segir að stór hluti Svía sé já­kvæður í garð úlfanna og að eina á­stæðan fyrir nýju lög­gjöfinni hafi verið eftir­spurn frá veiði­mönnum.

„Veiði­manna­sam­tökin hafa gífur­leg völd í Sví­þjóð. Það er stað­reynd að sænska þingið er meðal annars með veiði­klúbb sem er opinn öllum flokkum. Þau eru meira að segja með skot­svæði í kjallara þingsins. Ég veit það hljómar eins og brandari en það er dag­satt,“ segir Mari­e.

Hræðslan við úlfa

Árni Finns­son, for­maður Náttúru­verndar­sam­taka Ís­lands, segir að í Sví­þjóð ríki land­læg hræðsla við úlfa en hann bjó þar í 17 ár. Hann segir að um­ræðan um úlfa eigi til að fara á flug ef þeir sjást til dæmis ná­lægt manna­byggð.

„Þetta er mjög erfitt mál þarna úti. Það má í raun segja að þetta sé svo­lítið eins og með refinn hérna heima. Ef bændur á Ís­landi lenda í því að rollur þeirra eru drepnar af refum þá vilja þeir fara út og skjóta þá,“ segir Árni.

Hann tekur undir á­hyggjur sænskra náttúru­verndar­hópa um að veiði­heimildin gæti haft nei­kvæð á­hrif á vist­kerfi landsins. Sem rán­dýr eru úlfar ein af for­sendum líf­fræði­legs fjöl­breyti­leika og til­vist þeirra stuðli að ríkara dýra- og plöntu­lífi.

„Ef þú ert að tala um grisjun á stofni sem telst ekki nema um 400 dýr þá hefur það náttúr­lega mjög nei­kvæð á­hrif. Ég get ekki full­yrt um að stofninum verði út­rýmt, en þetta er ekki já­kvætt. Þetta er frekar bara vís­bending um hvað sænsk stjórn­völd eru við­kvæm fyrir kröfum bænda og hrein­dýra­eig­enda.“

Árni Finns­son, for­maður Náttúru­verndar­sam­taka Ís­lands.

Staða úlfa í Evrópu

Það eru rúm­lega 12 þúsund úlfar um alla Evrópu, sem er tölu­vert meira en í Banda­ríkjunum þar sem tegundin var of­sótt þar til verndunar­lög voru sam­þykkt á áttunda ára­tugnum.

Árið 2017 sást fyrsti úlfurinn í Lúxem­borg í rúm­lega öld og sama ár sást einnig úlfur í Dan­mörku, en þar höfðu úlfar ekki sést í tæp 200 ár. Úlfar hafa tekið sér fót­festu í hollenskum þjóð­garði og ráku í­búar í bænum Scanno á Ítalíu upp stór augu þegar þeir sáu fjóra úlfa eltast við hjörð hrein­dýra á götum bæjarins.

Úlfar geta ráðist á menn sé þeim ögrað eða þeir truflaðir á hátt sem kallar á varnar­við­brögð. Þetta getur verið með ýmsu móti, til dæmis ef úlfar sækja að hús­dýrum eða hundum. Í flestum til­fellum er á­rásin ekki meira en eitt eða tvö bit og svo hörfar úlfurinn. Á­rásirnar geta skaðað og jafn­vel drepið en engin merki hafa sést um til­raun til mann­áts.

Athugasemdir