Sænska ríkisstjórnin hefur heimilað fækkun í úlfastofni landsins um allt að helming. Náttúruverndarsinnar segja ákvörðunina einungis byggjast á eftirspurn veiðimanna. Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segir þetta dæmi um viðkvæmni sænskra yfirvalda gagnvart kröfum bænda.
Veiðimenn í Svíþjóð hafa fengið leyfi til að fella 75 úlfa í landinu í þessum mánuði. Úlfastofninn í landinu er talinn samanstanda af í kringum 365 dýrum en sænska þingið hefur heimilað fækkun þeirra niður í 170. Sú tala er rétt innan lágmarksverndarkrafna Evrópusambandsins.
Samkvæmt dagblaðinu The Guardian héldu í kringum 200 sænskir veiðimenn út í skóglendið á milli Gävleborg og Dalarna á mánudaginn, á fyrsta veiðidegi. Veiðiferðin bar engan árangur en veiðihundar þeirra náðu hins vegar að þefa uppi nokkur úlfagreni.
Umræðan um úlfa er mjög umdeild bæði í Svíþjóð og Noregi á milli náttúruverndarsinna og bænda og skotveiðimanna. Veiðimenn segja það nauðsynlegt að hægja á útbreiðslu úlfsins og að stofninn sé sá stærsti sem sést hefur í nútímasögu Svíþjóðar. Að sama skapi hafa bændur kvartað yfir árásum úlfa á sauðfé og segjast vera sammála stefnu stjórnvalda.

Anna-Caren Satherberg, landbúnaðarráðherra Svíþjóðar, sagði í maí í fyrra að úlfastofn landsins hefði stækkað með hverju ári og að tryggja þyrfti fækkun þeirra niður í ásættanlegri tölu sem ákveðin yrði af sænska þinginu.
Anna sagði ekki hversu stór úlfastofninn ætti að vera að hennar mati. Hún viðurkennir að Svíar þurfi að standast skuldbindingar ESB um verndun dýra í útrýmingarhættu en styður samt fólkið sem þarf að búa í nágrenni við úlfa, eða hræðist þá, og bændur sem hafa þolað búsifjar af þeirra völdum.
Hópur vísindamanna frá nokkrum evrópskum háskólum skrifaði nýlega grein í tímaritið Science þar sem ákvörðun sænsku ríkisstjórnarinnar var gagnrýnd og sögð ekki byggjast á neinum vísindalegum staðreyndum.
„Það er margt ófyrirsjáanlegt þegar kemur að villtu stofnunum og 170 dýr eru einfaldlega allt of fá. Við þurfum líka að huga að erfðafræði úlfa. Því minni sem úlfastofninn er, því meiri líkur eru á sveiflum í erfðamengi þeirra,“ segir Benny Gäfwart, rándýrasérfræðingur hjá World Wide Fund for Nature.

Veiðimannasamfélag
Veiði hefur verið stunduð í Svíþjóð síðan á 13. öld og er mjög rótgróin í sænskri menningu. Einn af hverjum 39 Svíum skilgreinir sig sem veiðimaður og þurfa þeir einungis að greiða í kringum fjögur þúsund krónur á ári í veiðigjöld.
Veiðar eru engu að síður umdeildar í Svíþjóð og segja sænskir náttúruverndarsinnar að hagsmunasamtök veiðimanna hafi mjög sterk tengsl við stjórnmálaöfl í landinu. Þeir segja að veiðimenn beiti stjórnmálamenn miklum þrýstingi til að auka veiðiheimildir á fleiri dýrategundum.
Marie Stegard, formaður félagsins Jaktkritikerna, sem gagnrýnir veiðarnar, segir að stór hluti Svía sé jákvæður í garð úlfanna og að eina ástæðan fyrir nýju löggjöfinni hafi verið eftirspurn frá veiðimönnum.
„Veiðimannasamtökin hafa gífurleg völd í Svíþjóð. Það er staðreynd að sænska þingið er meðal annars með veiðiklúbb sem er opinn öllum flokkum. Þau eru meira að segja með skotsvæði í kjallara þingsins. Ég veit það hljómar eins og brandari en það er dagsatt,“ segir Marie.
Hræðslan við úlfa
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að í Svíþjóð ríki landlæg hræðsla við úlfa en hann bjó þar í 17 ár. Hann segir að umræðan um úlfa eigi til að fara á flug ef þeir sjást til dæmis nálægt mannabyggð.
„Þetta er mjög erfitt mál þarna úti. Það má í raun segja að þetta sé svolítið eins og með refinn hérna heima. Ef bændur á Íslandi lenda í því að rollur þeirra eru drepnar af refum þá vilja þeir fara út og skjóta þá,“ segir Árni.
Hann tekur undir áhyggjur sænskra náttúruverndarhópa um að veiðiheimildin gæti haft neikvæð áhrif á vistkerfi landsins. Sem rándýr eru úlfar ein af forsendum líffræðilegs fjölbreytileika og tilvist þeirra stuðli að ríkara dýra- og plöntulífi.
„Ef þú ert að tala um grisjun á stofni sem telst ekki nema um 400 dýr þá hefur það náttúrlega mjög neikvæð áhrif. Ég get ekki fullyrt um að stofninum verði útrýmt, en þetta er ekki jákvætt. Þetta er frekar bara vísbending um hvað sænsk stjórnvöld eru viðkvæm fyrir kröfum bænda og hreindýraeigenda.“

Staða úlfa í Evrópu
Það eru rúmlega 12 þúsund úlfar um alla Evrópu, sem er töluvert meira en í Bandaríkjunum þar sem tegundin var ofsótt þar til verndunarlög voru samþykkt á áttunda áratugnum.
Árið 2017 sást fyrsti úlfurinn í Lúxemborg í rúmlega öld og sama ár sást einnig úlfur í Danmörku, en þar höfðu úlfar ekki sést í tæp 200 ár. Úlfar hafa tekið sér fótfestu í hollenskum þjóðgarði og ráku íbúar í bænum Scanno á Ítalíu upp stór augu þegar þeir sáu fjóra úlfa eltast við hjörð hreindýra á götum bæjarins.
Úlfar geta ráðist á menn sé þeim ögrað eða þeir truflaðir á hátt sem kallar á varnarviðbrögð. Þetta getur verið með ýmsu móti, til dæmis ef úlfar sækja að húsdýrum eða hundum. Í flestum tilfellum er árásin ekki meira en eitt eða tvö bit og svo hörfar úlfurinn. Árásirnar geta skaðað og jafnvel drepið en engin merki hafa sést um tilraun til mannáts.