Stjórnvöld í Svíþóð hafa ákveðið að framselja hálffertugan mann til Tyrklands. Maðurinn er einn þeirra sem er á lista Erdogans Tyrklandsforseta yfir þá sem Tyrkir vilja framselda áður en þeir samþykkja inngöngu Svíþjóðar í Nató.

Að sögn Sænska ríkissjónvarpsins var maðurinn sem um ræðir dæmdur af æðsta dómstóli í Tyrklandi á árunum 2013 og 2016 fyrir mörg brot í tengslum við debet- og krediskort. Alls hafi hann verið dæmdur í fjórtán ára fangelsi. Það sé á þessum grundvelli sem Tyrkir vilji manninn framseldan. Hann hefur verið í haldi í Svíþjóð frá því í lok síðasta árs vegna framsalskröfunnar.

Sjálfur mun maðurinn að sögn sænska ríkissjónvarpsins neita sök í málinu og kveða sig hafa verið ranglega dæmdan. Telji hann sjálfur að að hann hafi verið dæmdur vegna þess að hann snerist frá islam til kristindóms og vegna þess að að hann hafi neitað að gegna herþjónustu og þess að móðir hans sé Kúrdi.

Þá segir Sænska ríkissjónvarpið að um sé að ræða fyrsta framsalið í tengslum við samningana um inngöngu Svíþjóðar í Nató.