Svíar munu að öllum líkindum aflétta öllum takmörkunum vegna Covid-19 þann 9. febrúar, eða á miðvikudag eftir viku. Frá þessu er greint í sænskum fjölmiðlum en á vef Expressen og Aftonbladet segir að sænska ríkisstjórnin muni tilkynna um þessar afléttingar á morgun.
Nágrannar þeirra í Danmörku og Noregi hafa stigið svipuð skref í vikunni en Danir afléttu öllu og Norðmenn nærri öllum takmörkunum í vikunni.
Í frétt Expressen segir að ákvörðunin sé tilkomin vegna góðrar stöðu innan heilbrigðiskerfisins en að á sama tíma muni það samt áfram gilda að fólk eigi að halda sig heima ef það er veikt. Þá er einnig vísað til góðrar stöðu hvað varðar bólusetningu Svía gegn Covid-19 og að nýjasta afbrigði veirunnar, Omíkron, sé vægara en fyrri afbrigði þess.
Þar segir að forsætisráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, muni tilkynna um afléttingarnar á blaðamannafundi í fyrramálið.