Karl Gústaf Svíakonungur segist telja að Svíþjóð hafi mistekist að ná stjórn á heimsfaraldri COVID-19 en Svíar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir þeirra nálgun að faraldrinum. Eins og staðan er í dag hafa hátt í 350 þúsund manns greinst með veiruna og hátt í 8 þúsund látist eftir að hafa smitast þar í landi.
„Ég tel að okkur hafi mistekist. Við erum með mikinn fjölda sem hefur látist og það er hræðilegt,“ segir konungurinn í myndbandi sem sænska ríkisútvarpið, SVT, birtir en um er að ræða bút úr viðtali við konunginn úr þættinum Året med kungafamiljen sem sýndur verður í næstu viku.
Í viðtalinu horfir konungurinn til baka á árið sem er að líða en hann lýsir því að árið hafi verið hræðilegt fyrir alla Svía. Hann sagði sárt að hugsa til þess að fólk hafi ekki getað kvatt látna ástvini sína og bætti við að hann væri sjálfur meira meðvitaður um að hann gæti smitast.
Brugðust ekki rétt við
Líkt og greint var frá í síðustu viku var síðastliðinn nóvember mannskæðasti nóvember í yfir 100 ár í Svíþjóð en mun fleiri hafa látist úr COVID-19 í Svíþjóð heldur en í hinum Norðurlöndunum. Svíar eru nú með hæstu dánartíðnina af öllum Norðurlöndunum.
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, viðurkenndi í vikunni að heilbrigðisyfirvöld hefðu ekki brugðist rétt við veirunni í fyrstu bylgju faraldursins en Svíar gripu ekki til samkomutakmarkana á þeim tíma heldur hvöttu aðeins fólk til að huga að persónubundnum sóttvörnum.
Þá komst stjórnskipuð nefnd að því að yfirvöldum hafi mistekist að vernda aldraða einstaklinga í Svíþjóð og að ríkisstjórnin bæri endanlega ábyrgð á því. Eftir að fjöldi tilfella fór vaxandi í haust voru hertar takmarkanir settar á og miðast samkomubann þar í landi nú við átta manns.
I Året med kungafamiljen ser kung Carl XVI Gustaf tillbaka på 2020, och tycker att Sverige har misslyckats med att rädda liv under coronapandemin. ”Jag anser att vi har misslyckats. Vi har ett stort antal som har avlidit och det är fruktansvärt.” https://t.co/fsk0EpHtDd
— SVT Nyheter (@svtnyheter) December 17, 2020