Karl Gústaf Svía­konungur segist telja að Sví­þjóð hafi mis­tekist að ná stjórn á heims­far­aldri CO­VID-19 en Svíar hafa verið harð­lega gagn­rýndir fyrir þeirra nálgun að far­aldrinum. Eins og staðan er í dag hafa hátt í 350 þúsund manns greinst með veiruna og hátt í 8 þúsund látist eftir að hafa smitast þar í landi.

„Ég tel að okkur hafi mis­tekist. Við erum með mikinn fjölda sem hefur látist og það er hræði­legt,“ segir konungurinn í mynd­bandi sem sænska ríkisútvarpið, SVT, birtir en um er að ræða bút úr við­tali við konunginn úr þættinum Året med kungafamiljen sem sýndur verður í næstu viku.

Í við­talinu horfir konungurinn til baka á árið sem er að líða en hann lýsir því að árið hafi verið hræði­legt fyrir alla Svía. Hann sagði sárt að hugsa til þess að fólk hafi ekki getað kvatt látna ást­vini sína og bætti við að hann væri sjálfur meira með­vitaður um að hann gæti smitast.

Brugðust ekki rétt við

Líkt og greint var frá í síðustu viku var síðast­liðinn nóvember mann­skæðasti nóvember í yfir 100 ár í Sví­þjóð en mun fleiri hafa látist úr CO­VID-19 í Sví­þjóð heldur en í hinum Norður­löndunum. Svíar eru nú með hæstu dánar­tíðnina af öllum Norður­löndunum.

For­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar, Stefan Löfven, viður­kenndi í vikunni að heil­brigðis­yfir­völd hefðu ekki brugðist rétt við veirunni í fyrstu bylgju far­aldursins en Svíar gripu ekki til sam­komu­tak­markana á þeim tíma heldur hvöttu að­eins fólk til að huga að per­sónu­bundnum sótt­vörnum.

Þá komst stjórn­skipuð nefnd að því að yfir­völdum hafi mis­tekist að vernda aldraða ein­stak­linga í Sví­þjóð og að ríkis­stjórnin bæri endan­lega á­byrgð á því. Eftir að fjöldi til­fella fór vaxandi í haust voru hertar tak­markanir settar á og miðast sam­komu­bann þar í landi nú við átta manns.