Karl Gústaf Svía­konungur tók þá á­kvörðun í morgun að fimm af sjö barna­börnum hans myndu ekki lengur til­heyra konunglegu hirðinni við konungshöllina. Börnin verða á­fram hluti af konungs­fjöl­skyldunni en munu ekki lengur hljóta fram­færslu­eyri tignar­fólks frá sænska ríkinu.

Á­kvörðunin hefur á­hrif á börn Madeil­ein­e Svía­prinsessu, prinsessuna Leonoru, fimm ára, prinsinn Nicolas, fjögurra ára og Adrienne prinsessu sem er eins árs. Þau munu á­samt sonum Karl Filips Svía­prins, Alexanders og Gabríels, þriggja og tveggja ára, nú teljast til al­mennra borgara.

Á­fram prinsar og prinsessur

Börnin munu þó öll halda titlum sínum sem prinsar og prinsessur, auk þess sem þau munu halda stöðu sinni í erfða­röðinni. Þau munu þrátt fyrir það ekki koma til með að sinna neinum opin­berum skyldum.

Börn Viktoríu krón­prinsessu og eigin­manns hennar, Daníels prins, Estelle prinsessa og Óskar prins, munu á­fram halda sínum titlum.

Madeleine prinsessa ásamt eiginmanni sínum Chris O´Neill og börnum þeirra sem teljast nú til almennra borgara.

Skilar sér ekki í lægri kostnaði við hirðina

Fredrik Wersäll, ríkis­mar­skálkur Sví­þjóðar, til­kynnti um breytingarnar á blaða­manna­fundi í Sví­þjóð í morgun. Að­spurður sagði hann foreldra barnanna, Madelein­e og Karl Filip, vera með­fylgjandi breytingunum og þyki þær sýna fram á já­kvæða þróun.

Wersäll sagðist þó ekki gera ráð fyrir að fyrir­komu­lagið myndi skila sér í minni kostnaði við rekstur sænsku hirðarinnar.

Karl Filip ásamt konu sinni Soffíu prinsessu, sem er fyrrverandi undirfatafyrirsæta.