Sverrir Thor­sten­sen, fugla­á­huga­maður, sló í gær Ís­lands­met í fugla­merkingum. Þá merkti hann sinn 93. þúsundasta fugl, fal­legan auðnu­titt­ling að hans sögn. „Auð­vitað var gaman að slá þetta met sem var búið að standa ansi lengi“ segir Sverrir í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Ég byrjaði að merkja fugla árið 1979, svo þetta er fer­tugasta og fjórða árið núna í ár“ segir Sverrir en hann var einungis þrí­tugur þegar hann merkti sinn fyrsta fugl.

Áralangt áhugamál

Að­spurður að því hvort það sé full vinna að merkja fugla segir Sverrir svo ekki vera. „Nei, frá upp­hafi hefur þetta bara verið á­huga­mál, og er það enn. En við getum sagt að síðustu tíu árin, eftir að ég fór á eftir­laun, þá hef ég getað eytt í þetta meiri tíma.“

„Núna í byrjun þessa árs hefur verið alveg ó­hemju­fjöldi af auðnu­titt­lingum þannig að ég hef gert lítið annað en að merkja fugla síðan í janúar“ segir Sverrir.

Aðspurður hvort hann einhver einn fugl sem hann hafi merkt standi upp úr segir Sverrir svo ekki vera. „Þær eru oft merki­legar endur­heimturnar, þegar fuglarnir koma aftur. Við erum að merkja fuglana til þess að fá síðan upp­lýsingar um hvert þeir fara, hvað þeir verða gamlir og hvort þeir komi aftur á sömu staði, meðal annars.“

Auðnutittlingurinn sem varð 93 þúsundasti fuglinn sem Sverrir merkti.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Þrjátíu ára gömul álft eftirminnileg

Sverrir nefndi þó eina álft sem stóð honum ofar­lega í minni, „ég er búinn að vera að merkja álftir í fjölda­mörg ár og álftir eru lang­lífar. Elsta álftin sem að ég merkti náði að verða rúm­lega þrjá­tíu ára gömul.“

Suma fulga hittir Sverrir ár eftir ár að eigin sögn.

„Ef ég er að merkja á varp­stöðum fugla sem eru lang­lífir, þá er ég kannski að taka sömu fuglana ár eftir ár. Maður tekur kannski sama fuglinn nokkur ár í röð á ná­kvæm­lega sama stað á syllunni.“

Að­spurður að því hvort hann stefni á að merkja hundrað þúsund fugla hlær Sverrir og segir það markmiðið. „Fjöldinn í raun og veru skiptir ekki höfuð­máli, þetta er engin keppni.“

Óvenjustór auðnutittlingastofn

Undir venjulegum kringumstæðum telst árið gott í merkingum hjá Sverri ef hann fer yfir þrjú þúsund fugla, hann er þó búinn að merkja rúm­lega fjögur þúsund það sem af er þessu ári. Svo það stefnir í gott ár í merkingum. Sverrir segir á­stæðuna fyrir því sé stærð auðnu­titt­linga­stofnsins á þessu ári, hann er ó­venju­stór.

Þrjár tegundir standa undir mestum hluta merkingar Sverris. Hann hefur merkt um tuttugu þúsund auðnu­titt­linga, sau­tján þúsund snjó­titt­linga og sau­tján þúsund skógar­þresti.

Að sögn Sverris merkir hann fugla allt árið um kring en hann er með bók­hald heima hjá sér um hvaða fugla hann merkir, hve­nær, aldur þeirra og svo fram­vegis.

Sverrir skilar síðan gögnum til Náttúru­fræði­stofnunar Ís­lands ár­lega.