Sverrir Thorstensen, fuglaáhugamaður, sló í gær Íslandsmet í fuglamerkingum. Þá merkti hann sinn 93. þúsundasta fugl, fallegan auðnutittling að hans sögn. „Auðvitað var gaman að slá þetta met sem var búið að standa ansi lengi“ segir Sverrir í samtali við Fréttablaðið.
„Ég byrjaði að merkja fugla árið 1979, svo þetta er fertugasta og fjórða árið núna í ár“ segir Sverrir en hann var einungis þrítugur þegar hann merkti sinn fyrsta fugl.
Áralangt áhugamál
Aðspurður að því hvort það sé full vinna að merkja fugla segir Sverrir svo ekki vera. „Nei, frá upphafi hefur þetta bara verið áhugamál, og er það enn. En við getum sagt að síðustu tíu árin, eftir að ég fór á eftirlaun, þá hef ég getað eytt í þetta meiri tíma.“
„Núna í byrjun þessa árs hefur verið alveg óhemjufjöldi af auðnutittlingum þannig að ég hef gert lítið annað en að merkja fugla síðan í janúar“ segir Sverrir.
Aðspurður hvort hann einhver einn fugl sem hann hafi merkt standi upp úr segir Sverrir svo ekki vera. „Þær eru oft merkilegar endurheimturnar, þegar fuglarnir koma aftur. Við erum að merkja fuglana til þess að fá síðan upplýsingar um hvert þeir fara, hvað þeir verða gamlir og hvort þeir komi aftur á sömu staði, meðal annars.“

Þrjátíu ára gömul álft eftirminnileg
Sverrir nefndi þó eina álft sem stóð honum ofarlega í minni, „ég er búinn að vera að merkja álftir í fjöldamörg ár og álftir eru langlífar. Elsta álftin sem að ég merkti náði að verða rúmlega þrjátíu ára gömul.“
Suma fulga hittir Sverrir ár eftir ár að eigin sögn.
„Ef ég er að merkja á varpstöðum fugla sem eru langlífir, þá er ég kannski að taka sömu fuglana ár eftir ár. Maður tekur kannski sama fuglinn nokkur ár í röð á nákvæmlega sama stað á syllunni.“
Aðspurður að því hvort hann stefni á að merkja hundrað þúsund fugla hlær Sverrir og segir það markmiðið. „Fjöldinn í raun og veru skiptir ekki höfuðmáli, þetta er engin keppni.“
Óvenjustór auðnutittlingastofn
Undir venjulegum kringumstæðum telst árið gott í merkingum hjá Sverri ef hann fer yfir þrjú þúsund fugla, hann er þó búinn að merkja rúmlega fjögur þúsund það sem af er þessu ári. Svo það stefnir í gott ár í merkingum. Sverrir segir ástæðuna fyrir því sé stærð auðnutittlingastofnsins á þessu ári, hann er óvenjustór.
Þrjár tegundir standa undir mestum hluta merkingar Sverris. Hann hefur merkt um tuttugu þúsund auðnutittlinga, sautján þúsund snjótittlinga og sautján þúsund skógarþresti.
Að sögn Sverris merkir hann fugla allt árið um kring en hann er með bókhald heima hjá sér um hvaða fugla hann merkir, hvenær, aldur þeirra og svo framvegis.
Sverrir skilar síðan gögnum til Náttúrufræðistofnunar Íslands árlega.