Sverrir Einar Eiríksson athafnamaður er ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri einkahlutafélaganna BHG, Sogið veitingar og Jupiter gisting.

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru og verður málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Sverrir hefur komið víða við í fasteigna- og viðskiptaheiminum, með Byggingarfélaginu Þaki og starfsmannaleigunni Proventus.Þar að auki hefur stundað gull-, listmuna- og demantaviðskipti í gegnum árin.

Í ákæru héraðssaksóknara er honum meðal annars gefið að sök að hafa ekki greitt virðisaukaskatt upp á tæpar 3,8 milljónir króna meðan hann var framkvæmdastjóri og varastjórnarmaður félagsins BHG. Sömuleiðis er hann sakaður um að hafa ekki staðgreitt opinber gjöld sem haldið var aftur af launum starfsmanna félagsins að fjárhæð tæplega 10,4 milljónir króna. Þetta eru samtals tæpar 14,2 milljónir sem hann er sakaður um að hafa nýtt í þágu félagsins.

Sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins Sogið veitingar er Sverrir ákærður fyrir að hafa ekki staðgreitt opinber gjöld sem haldið var aftur af launum starfsmanna félagsins að fjárhæð tæplega 9,3 milljónir. Líkt og í tilfelli BHG er hann sakaður um að hafa nýtt ávinningin í þágu rekstrar félagsins.

Eins er hann ákærður fyrir sama brot í máli Jupter gistingar, þar sem hann var einnig framkvæmdastjóri og stjórnarmaður. Í því tilfelli er hann sagður hafa sleppt því að greiða nær rúmar 8,7 milljónir til ríkissjóðs og nýtt upphæðina í rekstur.

Sam­tals er um að ræða 32,2 millj­óna króna skatta­laga­brot sem Sverrir er ákærður fyrir.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari sækir málið en hann krefst þess að Sverrir verði dæmdur til refsingar og til greiðslu allar sakarkostnaðar.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason