Eig­endur skemmti­staðanna Röntgen, Priksins og Kaffi­barsins sverja af sér að hafa verið meðal staða sem brutu gegn sótt­varnar­reglum í gær, í Face­book færslum þar sem farið er yfir til hvaða tak­markana þeir gripu.

Greint hefur verið frá því að lög­reglan fór inn á 24 veitinga­hús og skemmti­staði í gær. Þar af voru fimm­tán staðir sem ekki fram­fylgdu sótt­varnar­reglum með við­unandi hætti. Hafa lög­reglu­menn sagt í dag að þeir hafi ekki treyst sér inn á staðina af ótta við smit, svo þver­fótað var inni á þeim.

For­svars­menn skemmti­staðarins Röntgen taka fram í sinni Face­book færslu að lög­reglan hafi ekki mætt í heim­sókn í gær. Hins­vegar hræðist þeir ekki slíka heim­sókn.

Tveggja metra reglan vefjist fyrir sumum

„Röntgen býður uppá 3 rými á 2 hæðum, 4 klósett, 2 bari og sótt­hreinsi­stöðvar á víð og dreif um staðinn. Þá höfum við fækkað borðum og stólum til við­bótar við að hleypa aldrei fleiri en 80 manns inná staðinn og eru þá starfs­menn með­taldir,“ skrifa þeir.

Þeir segja að þó að svo hafi verið gert hafi komið upp til­vik þar sem tveggja metra reglan vefst fyrir gestum þeirra. Því sé til skoðunar að þrengja enn frekar að rekstrinum og fækka leyfi­legum fjölda gesta niður í 50 til 60 manns.

Þrátt fyrir þessar að­gerðir hafa komið upp til­vik þar sem 2ja metra reglan virðist vefjast fyrir gestum okkar og skoðum við því að þrengja enn frekar að rekstrinum og fækka leyfi­legum fjölda gesta í vikunni niður í 50-60 manns.

Vilja frekar sleppa djamminu í bili

For­svars­menn Kaffi­barsins taka einnig fram að þeir hafi ekki fengið heim­sókn frá lög­reglunni í gær. Hins­vegar hafi allt verið gert sem hægt er til þess að fylgja sótt­varnar­reglum.

„Þegar nýjustu tak­markanirnar voru til­kynntar fækkuðum við strax borð og stóla á barnum til þess að tryggja tveggja metra bil á milli hópa og við opnuðum einnig efri hæðina. Svo veit starfs­fólkið veit hvernig reglurnar eru og það fylgir þeim,“ skrifa for­svars­menn staðarins.

„Við vitum öll að Kaffi­barinn er vel­þekktur djamm­staður en við viljum frekar sleppa djamminu í bili til þess að tryggja heilsu gestanna okkar. Það verður samt góð stemning og skemmti­leg tón­list á barnum.“

Kvöddu með virktum

For­svars­menn Priksins taka fram að þeir hafi vissu­lega fengið heim­sókn lög­reglunnar í gær­kvöldi. Lög­reglu­fólki hafi verið sýndur staðurinn og þær for­varnir sem gripið hafi verið til. Tekið er fram að lög­reglu­fólkið hafi kvatt eig­endur með virktum og þeim gefið lof fyrir smit­varnir.

„Hefur Prikið fylgt eftir fyrir­mælum yfir­valda í einu og öllu frá fyrsta degi, og munum við halda því á­fram á meðan á­stand varir. Einnig höfum við á­vallt verið í góðum sam­skiptum og átt í sterku sam­bandi við lög­reglu,“ skrifa eig­endurnir.

Þeir taka fram að borða­skipan staðsins hafi verið breytt oftar en einu sinni. Þannig séu að­eins í boði fjögur borð á efri hæðinni og tvö á neðri hæð.

„En einnig höfum við bætt við að­stöðu okkar í porti og fyrir framan hús með úti­borðum og skýli fyrir veðrum af öllu tagi. Eru allir snerti­fletir hreinsaðir reglu­lega, starfs­fólk fengið sér­tæka þjálfun, og gerileyðir fáan­legur við inn­gang og á öllum helstu stöðvum hússins.“