Ein af vinsælustu tillögunum í hverfiskosningu Breiðholts á vefsvæði Betri Reykjavíkur er að reisa styttu af Sverri Þór Sverrissyni, betur þekktum sem Sveppa. Skemmtikrafturinn góðkunni segir tilfinninguna furðulega, en á sama tíma skemmtilega.

„Það eru rosaleg tíðindi. Ég var búinn að sjá þessa hugmynd en ég hélt að þetta væru bara einhverjir krakkar að setja þetta inn til gamans. Ég hef séð margt vitlausara,“ segir Sveppi í samtali við Fréttablaðið þegar hugmyndin er borin undir hann.

„Mér finnst þessi hugmynd aðallega bara fyndin en ég veit ekki hvernig maður myndi taka því. Þetta er absúrd en er samt hugmynd á blaði og mér finnst öll svona vitleysa skemmtileg. Það eru allt of fáar styttur í Reykjavík. Það er alltaf gaman að þeim,“ segir Sveppi glettinn.

„Ég yrði smá hræddur við að það væri komið trúðanef og gleraugu eða búið að henda eggjum í hana innan skamms, en það er bara hluti af stemningunni. Það væri kannski bara ágætt.“

Sveppi segir að sér þyki öll vitleysa eins og þessi hugmynd skemmtileg. En tillagan er ein sú vinsælasta á vefsvæðinu Betri Reykjavík.
Fréttablaðið/SigtryggurAri

Á tillöguvefnum fyrir Breiðholtið kemur í ljós að aðeins fimm hugmyndir hafa fengið jákvæðari viðbrögð en tillagan um að fá „styttu af Sveppa Krull því hann ólst upp í Breiðholtinu“. Nú er boltinn í höndum Reykjavíkurborgar.

„Steindi og Egill hafa oft talað um það í útvarpsþættinum á FM957 að reyna að fá styttu af Audda (Auðuni Blöndal) á Sauðárkróki. Það kæmi mér ekki á óvart ef þessi hugmynd væri afsprengi af þeirri hugmynd því þeir hafa oft talað um það í útvarpinu.“

Þetta er ekki eina tillagan um styttugerð á þessu ári. Það var meðal annars gerð tilraun til að fá styttu af Kanye West í Vesturbænum en Sveppi segist sjá húmorinn í hugmyndinni, fái hann símtal frá Reykjavíkurborg til að kanna áhuga af hans hálfu.

„Algjörlega. Ég myndi nú vilja fá að sjá gerð styttunnar svo ég lendi ekki í því sama og Cristiano Ronaldo lenti í með sína styttu. Svo er góð spurning hvar hún ætti að vera,“ segir Sveppi sem segir aðeins eitt póstnúmer koma til greina. „Styttan þyrfti að vera í 109. Þetta yrði í Bökkunum,“ segir Sveppi.