Lokun Kjarval, einu matvöruverslunarinnar á Kirkjubæjarklaustri, var rædd á sveitarstjórnarfundi Skaftárhrepps á fimmtudag og voru fulltrúar harðorðir. Sérstaklega vegna þess stutta fyrirvara sem gefin var, það er til áramóta, á hálfu eignarhaldsfélagsins Festis.

Fékk sveitarstjórn að vita af lokuninni á þriðjudag.Sagði Eva Björk Harðardóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins hafa áhyggjur af stöðunni því ógerlegt væri að fá annan rekstraraðila með svo stuttum fyrirvara.

Jóna Björk Jónssdóttir fulltrúi Sólar í Skaftárhreppi sagði framkomu fyrirtækisins gagnvart íbúunum og starfsfólkið fyrir neðan allar hellur, enda hafi starfsfólkið ekki vitað af lokuninni.

„Þessi fundur var eiginlega bara vanvirðing. Mér var misboðið,“ sagði hún.Sagði Bjarki Guðnason, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, að búið væri að ganga að húsnæðinu til húðar.

„Það er meira en að segja það að starta nýrri verslun,“ sagði hann. „Það verður ekki verslun hér í sveitarfélaginu á fyrstu mánuðum ársins.“„Skelfileg framkoma“, „niðurlæging fyrir sveitarfélagið“ og „skítleg framkoma“ var meðal þess sem fulltrúarnir sögðu á fundinum. En voru sammála um að finna leiðir til að opnuð yrði verslun á nýjan leik, sem allra fyrst.

Á fimmtudag sagði Ásta Sigríður Fjeldsted við Fréttablaðið að markmiðið væri að nýjir kaupendur, Systrakaffi, myndu halda áfram með verslun í bænum. Einnig að íbúum Klausturs yrði boðið að kaupa vörur af Krónunni með snjallverslun og fá þær sendar. Á sveitarstjórnarfundinum sagði Eva Björk að snjallverslun kæmi „aldrei í staðinn fyrir matvöruverslun á svæðinu.“