Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðar, fær 1.550.000 krónur í mánaðarlaun samkvæmt nýgerðum ráðningarsamningi hans.

BB.is greinir frá.

Meðal launa fær Ólafur Þór greidda 400 kílómetra á mánuði í akstursstyrk og sveitarfélagið greiðir einnig notkun á farsíma og fyrir nettengingu.

Samhliða starfi sveitarstjóra er Ólafi Þór heimilt að gegna starfi formanns knattspyrnudeildar Reynis í Sandgerði áfram en samkvæmt ráðningarsamningnum má hann ekki taka að sér önnur störf án samþykkis sveitarstjórnar.

Ólafur Þór var fyrst ráðinn sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps í febrúar 2020 og voru laun hans þá 1.400.000. Launin eru tengd launavísitölu og hækka hver áramót miðað við þær breytingar.

Ráðningarsamningurinn gildir til loka maí 2026 og er gagnkvæmur sex mánaða uppsagnarfrestur.

Verði Ólafur Þór ekki endurráðinn fær hann greidd þriggja mánaða biðlaun og hefur sveitarstjórn aðgang að honum í einn mánuð eftir starfslok án frekari launa.

Samkvæmt vef Sambands íslenskra sveitarfélaga var íbúafjöldi Tálknafjarðarhrepps 255 í upphafi árs.

Ef miðað er við könnun á kjörum sveitarstjórnarfólks og sveitarstjóra sveitarfélaga 2022 sem framkvæmd var af Sambandinu voru mánaðarlaun sveitarstjóra í sveitarfélögum með 200 til 499 íbúa á bilinu 400 þúsund til 1,3 milljón króna.