Sveitar­stjóri Súða­víkur, Bragi Þór Thor­odd­sen, féll í á við þorpið á fimmtu­dags­kvöld og slasaðist. Betur fór en á horfðist en Bragi þarf þó að verða af restinni af göngu­há­tíðinni sem fer fram í Súða­vík um þessar mundir en allt lítur út fyrir að hann þurfi að ferðast innan­húss restina af sumri.

„Þetta var nú bara ein­fald­lega þannig að ég var úti að labba með hundinn minn, hún er labrador­tík og hefur gaman að vera í vatni, og ég elti hana út í á. Ég held ég hafi nú ekki verið hætt kominn en ég datt ansi illa, á stein og ofan í svelg og klambraði mig að­eins en komst af sjálfs­dáðum upp úr,“ segir Bragi.

Bragi meiddist sem betur fer ekki al­var­lega en hann fékk góða að­stoð frá björgunar­sveitinni Kofra í Súða­vík.

„Ég var nú bara sóttur af björgunar­sveitinni Kofra og fór með sjúkra­bíl á Ísa­fjörð. Það var ekkert annað í boði því ég var bara ó­sjálfs­bjarga í rauninni,“ segir hann.

Frá gönguhátíðinni í Súðavík.
Mynd/Aðsend

Töluvert rólegra yfir gönguhátíðinni

Bragi í­trekar þó að fólk sem hyggst taka þátt í göngu­há­tíðinni í Súða­vík þurfi ekki að óttast að fylgja í fót­spor hans því göngurnar séu fremur auð­veldar og að­gengi­legar flestum.

„Það er vissu­lega ró­legra yfir henni en í ein­hverju svona. Ég held þetta séu nú ekki þannig göngur að við þurfum að hafa af­föll af fólki. Veðrið er líka búið að vera frá­bært.“

Göngu­há­tíðin var form­lega sett í gær með súpu­kvöldi og brennu og stendur hún yfir fram á mánu­dag. Bragi segir dag­skrána vera sér­stak­lega sniðna með sótt­varnir í huga en öllum við­burðum sem halda átti innan­húss hefur verið af­lýst. Hann segist sjálfur vera brattur þrátt fyrir slysið þótt ljóst sé að hann muni ekki taka þátt í göngunum sem á­ætlaðar eru.

„Þetta gefur nú ekki mögu­leika á miklu öðru en að ferðast innan­húss í sumar þegar maður er svona en ég á nú ekki von á að þetta stoppi mig lengi,“ segir Bragi sem kveðst vera ó­brotinn en lemstraður og illa tognaður.