Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, segir að hún hafi verið ásökuð um einelti í starfi. Í færslu á Facebook hafnar hún ásökununum alfarið.

„Undanfarnir dagar hafa verið mér erfiðir. Ég hef verið ásökuð um einelti í starfi mínu sem sveitarstjóri gagnvart starfsmanni. Mér þykir miður að starfsmaðurinn hafi upplifað einelti af minni hálfu,“ segir Þórdís í færslunni. „Ég hef það að leiðarljósi, í starfi mínu og lífinu almennt, að gæta jafnræðis, stuðla að góðum samskiptum, taka á vandasömum málum og hreinskilni er mér sérstaklega hugleikin.“

Hún hafnar ásökununum alfarið.

„Framangreindri ásökun um einelti hafna ég alfarið. Ég get eðli máls samkvæmt ekki greint frá málinu í efnisatriðum vegna þagnarskyldu minnar sem sveitarstjóri, en málið er í farvegi þar sem allt er upp borðum.“