Undanfarnir mánuðir hafa verið erfiðir fyrir stjórnendur Sorpu bs. enda hefur hvert óþægilega málið á fætur öðru skotið upp kollinum. Eitt af þeim tengist metnaðarfullri moltuframleiðslu fyrirtækisins sem lítil eftirspurn virðist eftir.

Í byrjun september var greint frá því að vegna mistaka við gerð fjárhags­áætlunar fyrirtækisins þyrfti að bæta 1.365 milljónum króna við áætlunina. Hluti af þessum viðbótarkostnaði var vegna framkvæmda við gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi. Kostnaður við framkvæmdina var vanáætlaður um 637 milljónir króna sem þýddi að stöðin kostar í heildina um 4.247 milljónir króna í stað rúmlega 3.600 milljóna.

Tilgangur stöðvarinnar er að framleiða metangas og jarðbæti, moltu. Framkvæmdalokum stöðvarinnar hefur seinkað en ráðgert er að stöðin verði tekin í gagnið í maí 2020. Þá mun framleiðslugeta fyrirtækisins á metani tvöfaldast. Nú selst ekki nema hluti af framleiðslu fyrirtækisins á metani. Afgangurinn er brenndur.

Stjórnendur Sorpu bs. eru þó bjartsýnir á að markaður finnist fyrir allt metanið. Í rekstraráætlun fyrirtækisins fyrir næstu fimm ár er gert ráð fyrir að salan verði óbreytt árið 2019 og 2020 en síðan er reiknað með sölukipp. Gert er ráð fyrir að salan aukist um 12 prósent á hverju ári. Ljóst er að talsverð áskorun verður að ná þessum markmiðum.

Um miðjan ágúst sendi Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu bs., út erindi um metanframleiðsluna til sveitarfélaganna sem eiga fyrirtækið, Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, auk ýmissa undirstofnana þeirra.

Í erindinu var athygli vakin á að metan væri eina vottaða vistvæna eldsneyti landsins. Kallaði Björn, fyrir hönd fyrirtækisins, eftir svörum um hvort viðkomandi sveitarfélag eða stofnun hygðist nýta metan frekar í sinni starfsemi. Óskaði hann eftir formlegri afstöðu hið allra fyrsta.

Á bæjarráðsfundi Kópavogsbæjar í gær var málið rætt og lögð fram umsögn sviðsstjóra umhverfissviðs bæjarins. Í því kemur fram að enginn af 56 bílum bæjarins gengur fyrir metani í dag og óraunhæft sé að nýta hið umhverfisvæna eldsneyti nema á mjög lítinn hluta farartækjanna.

Í umsögninni kemur fram að skortur á framboði af tækjum sem ganga fyrir metani sé einn helsti þröskuldurinn fyrir metanvæðingu tækja Kópavogsbæjar. Þannig sé aðeins einn aðili hérlendis sem selur metanknúin tæki og því ólíklegt að hægt sé að ná fram hagstæðum innkaupum. Metanvélar séu einfaldlega dýrari en dísilvélar.

Af sömu ástæðu er ekki sagt raunhæft að gera kröfu um að metan verði notað sem eldsneyti hjá þeim verktökum sem taka þátt í útboðsverkefnum bæjarins. Sú krafa myndi þýða að þátttaka í slíkum útboðum yrði dræm.

Sömu sögu er að segja frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Sorpu kemur fram að stofnunin eigi tvær metanbifreiðar til að sinna minni verkefnunum en möguleikarnir til að nýta metan séu verulega takmarkaðir.