Utanríkisráðherra leggst gegn því að pólsk sveitarfélög sem hafi lýst því yfir að vera „laus við hinsegin hugmyndafræði“ (e. LGBT-ideology free zones) fái styrki úr Uppbyggingarsjóði Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Umræddur sjóður er fjármagnaður af EES-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein og veitir styrki til ýmissa verkefna í löndum innan EES.

Í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns utan flokka, segir að það sé skýlaus afstaða Íslands að slíkar yfirlýsingar „séu í bága við almenn mannréttindi og viðurkennd gildi vestrænna lýðræðisríkja.“

Að sögn ráðherrans lýstu fulltrúar EES-ríkjanna þriggja í kjölfarið yfir áhyggjum af stjórnmálaþróun í Póllandi á undirbúningsfundi fyrir ársfund sjóðsins þar í landi í sumar.

Stríði gegn mannréttindasáttmálanum

Þá hafi áhyggjum ríkjanna varðandi svæði sem hafi lýst því yfir að þau væru „laus við hinsegin hugmyndafræði“ verið fylgt eftir með bréfi til landstengiliðs Uppbyggingasjóðsins í Póllandi og bent á að yfirlýsingarnar stríði gegn mannréttindasáttmála Evrópu og lagalegum grunni EES-samningsins.

„Því miður hafa umræddar yfirlýsingar sveitarstjórna hins vegar ágerst í Póllandi og sendi því stjórn sjóðsins annað bréf til landstengiliðsins í Póllandi hinn 23. september síðastliðinn,“ segir í svari ráðherra.

„Þar er framangreint ítrekað og það tekið fram að styrkveiting til opinberra aðila í Póllandi sem hafi uppi framangreindar yfirlýsingar brjóti gegn reglum sjóðsins og það sé hlutverk landstengiliðarins að tryggja að farið sé eftir reglum hans.“

Að öðrum kosti muni gjafaríkin breyta eða stöðva greiðslur í samræmi við reglur sjóðsins.