Sex­tán sveitar­fé­lög sem ekki hafa fengið jafn­launa­vottun eiga það á hættu að verða beitt dag­sektum um ára­mót. Hafa þau trassað að klára ferlið sem þau áttu að ljúka fyrir tveimur árum síðan. Bæði Jafn­réttis­stofa og for­sætis­ráðu­neytið hafa þrýst á Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­laga að ljúka málinu.

„Jafn­réttis­stofa hefur heimildir til þess að beita dag­sektum og mun gera það ef þetta gengur ekki. Við erum hins vegar með­vituð um að við þurfum að gæta meðal­hófs þegar kemur að í­þyngjandi á­kvörðunum,“ segir Katrín Björg Ríkarðs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Jafn­réttis­stofu. „Um ára­mótin skoðum við al­var­lega hver staðan er með til­liti til hvort dag­sektar­heimildinni verði beitt.“

Um­rædd sveitar­fé­lög eru af öllum stærðum og gerðum, víðs vegar á landinu. Þar á meðal tvö af þeim fjöl­mennari, Kópa­vogs­bær og Akur­eyrar­bær. En Jafn­réttis­stofa er ein­mitt staðsett á Akur­eyri. Einnig má nefna Stykkis­hólms­bæ, Snæ­fells­bæ, Rang­ár­þing ytra og eystra, Blöndu­ós­bæ og Bolungar­víkur­kaup­stað.

Katrín Björg Ríkarðs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Jafn­réttis­stofu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Sveitar­fé­lögin eiga að ganga fram með góðu for­dæmi,“ segir Katrín. Til að mynda vegna þeirra fyrir­tækja sem starfa innan þeirra og þurfa að lúta lög­gjöfinni. 38 sveitar­fé­lög hafa fengið jafn­launa­vottun.

Jafn­réttis­stofa er ekki inni í ferlinu hjá hverju og einu sveitar­fé­lagi en fylgist með því hvort þau séu að vinna að því að fá vottun. Meðal annars hvort þau hafi gert samninga við vottunar­aðila.

Bæði Akur­eyrar­bær og Kópa­vogs­bær hafa gert slíka samninga. Full­trúar Kópa­vogs segjast ætla að klára málið á haust­dögum en Akur­eyrar fyrir ára­mót.

„Vegna ó­fyrir­sjáan­legra á­hrifa far­aldursins höfum við gefið tíma­frest. En nú er þessi tími liðinn sem ætla má að far­aldurinn hafi haft truflandi á­hrif á ferlið og við viljum að sveitar­fé­lögin spýti í lófana,“ segir Katrín. „Í upp­hafi óttuðumst við að lítil sveitar­fé­lög ættu erfiðara með þetta en það er ekki raunin.“

Hafa beri þó í huga að ekki öll sveitar­fé­lög falli undir lög­gjöfina, að­eins þau sem hafi 25 starfs­menn eða fleiri. Eru því þau 18 fá­mennustu, eins og Ár­nes­hreppur á Ströndum og Tjör­nes­hreppur í Þing­eyjar­sýslum, undan­þegin.

Katrín segir engin dæmi um að sveitar­fé­lög ein­fald­lega neiti að fram­fylgja lögunum eða sinni því ekkert að út­vega vottunina. Þau séu hins vegar mis­langt komin í ferlinu og henni finnst ganga ó­þarf­lega hægt hjá sumum þeirra.

Sex­tán sveitar­fé­lög hafa ekki fengið jafn­launa­vottun.

Sveitar­fé­lög sem ekki hafa fengið jafn­launa­vottun:

 • Akur­eyrar­bær
 • Blöndu­ós­bær
 • Bolungar­víkur­kaup­staður
 • Grundar­fjarðar­bær
 • Húna­þing vestra
 • Kópa­vogs­bær
 • Langa­nes­byggð
 • Rang­ár­þing eystra
 • Rang­ár­þing ytra
 • Reyk­hóla­hreppur
 • Skaft­ár­hreppur
 • Snæ­fells­bær
 • Stranda­byggð
 • Stykkis­hólms­bær
 • Sveitar­fé­lagið Skaga­strönd
 • Þing­eyjar­sveit