Strandabyggð hefur tekið yfir umsjón með þvottaplaninu sem N1 rak áður við bensínstöð sína á Hólmavík. Nokkuð er síðan N1 lokaði planinu og sömuleiðis hætti fyrirtækið rekstri loftdælu fyrir bíla.

„Það sýndi sig vera rétt ákvörðun, því notkun á planinu hefur verið mjög mikil frá því það var opnað aftur. Nú erum við að vinna að lausn varðandi loftdælu. Hvort tveggja er þjónusta sem verður að vera til staðar fyrir alla,“ skrifar Þorgeir Pálsson, oddviti Strandabyggðar, á vef sveitarfélagsins.

„Fjölgun ferðamanna og aukið mikilvægi Strandabyggðar sem þjónustukjarna almennt, kallar einnig á samstarf við þjónustuaðila um frekari uppbyggingu, til dæmis hvað varðar hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla og fleira,“ bætir Þorgeir við.