Von er á fjölskyldu frá Úkraínu í kvöld sem flýgur til landsins frá Póllandi. Í hópnum eru þrjú börn sem eru á aldrinum tveggja til átta ára.

Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir, tekur á móti fjölskyldunni og hefur hann óskað eftir fatnaði og dóti fyrir börnin á Facebook-síðu sinni.

Að sögn Sveins eru konurnar sem eru á leið til landsins einar á ferðinni ásamt börnum sínum.

„Eiginmönnum þessara kvenna var snúið við á landamærunum vegna þess að herkvaðningin tók gildi einhverjum klukkutíma áður en þau komust að landamærunum,“ segir Sveinn Rúnar í samtali við Fréttablaðið.

Sveinn segir börnin og konurnar hafa búið við kaldan veruleika á ferðalagi þeirra út úr Úkraínu. Þær hafi verið með börnin í yfirfullri rútu í tæpa tvo sólarhringa en mikil umferðarteppa skapaðist út úr landinu eftir að innrás Rússa hófst á fimmtudaginn fyrir tæpri viku. Þá hafi þær þurft að ganga síðustu þrjátíu kílómetrana að landamærunum með börnin.

„Að þetta sé að gerast hjá friðelskandi þjóð sem var á hraðri leið með að vera jafn Evrópsk og Berlín er þyngra en tárum takið,“ segir Sveinn.

Sveinn Rúnar ásamt syni sínum, Alexander, sem sækir nafn sitt til Úkraínu. Gælunafn hans væri Sasha þar í landi.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Afi og amma áfram í Úkraínu

Sveinn á sjálfur fjölskyldu í Úkraínu, sonur hans er hálf úkraínskur. „Afi hans og amma eru í sprengjuregni og treysta sér ekki til að fara þaðan vestur. Maður hefur séð myndbönd af mislukkuðum tilraunum óbreyttra borgara til þess að halda vestur á bóginn eða suður í átt að nágrannaríki þannig staðan er vægast sagt að verða hörmuleg á Evrópskri grundu.“

Sjálfur kom Sveinn fyrst til Úkraínu árið 2005, rétt eftir appelsínugulu byltinguna, þá hafi Úkraínumenn verið nýbúnir að hrinda frá stjórn.

Sveinn segir smitandi gleði og von sem var í loftinu hafi orðið til þess að hann ílengdist í landinu.

Rekur fyrirtæki í Úkraínu

Fljótlega hafi hann verið kominn með starfsstöð í Úkraínu, fyrirtæki og fólki í vinnu en hann rekur nú tvö lítil hugbúnaðarfyrirtæki þar í landi sem starfa meðal annars frá Kænugarði.

„Núna eru allir starfsmenn fyrirtækisins flúnir og mér sýnist svona síðustu starfsmennirnir vera fara yfir landamærin í dag eða á morgun,“ segir Sveinn og bætir við að einn starfsmaður hans hafi ákveðið að vera áfram í Kænugarði. Sá hafi flúið frá Donbas héraði í austurhluta Úkraínu árið 2014 með fjölskyldu sinni þegar Rússar hertóku austurhluta landsins.

Sveinn segir starfsmanninn orðinn svo vanan látunum að hann varla meðtaki hættuna sem hann sé í.

Fyrsta myndin sem Sveinn Rúnar tók við komuna til Úkraínu árið 2005, skömmu eftir Appelsínugulu byltinguna.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Ótvíræður munur á þjóðunum

Sveinn hefur einnig búið í Mosvku höfuðborg Rússlands. Hann segir ekki hægt að líkja Rússlandi og Úkraínu saman enda munurinn ótvíræður.

„Munurinn brýst kannski best fram í því að Rússar hafa síðustu tuttugu ár kosið þennan brjálæðing yfir sig á meðan Úkraínumenn vopnaðir molotov kokteilum hafa í þrígang brotið ofurvald hans á bak aftur.“

Sveinn segir innrásina í Úkraínu snerta alla og langar hann að koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri til allra vina sinna frá Rússlandi vegna yfirþyrmandi magns af upplýsingafalsi af hálfu Rússa.

„Mig langar til að segja við alla rússneska vini mína hér á Íslandi ef þeir eru í minnsta vafa um það hvoru megin þeir standa, þá bið ég þá um að biðja ættingja sína um að fara út úr húsi út á næsta götuhorn og muldra fyrir munni sér stöðu um stríðið. Þeir geta svo áttað sig á því þremur dögum síðar þegar viðkomandi sleppur út úr fangelsi með glóðarauga, hvorum megin þeir raunverulega standa.

Það er skylda þeirra að uppfræða þá Rússa sem eru innan lokaðra landamæra Rússlands og hafa ekki aðgang að upplýsingum það er skylda þeirra með öllum tiltækum ráðum, að koma myndum, myndböndum og staðreyndum áleiðis til þess að þessi vandi verði leystur heimafyrir því öðruvísi leysist hann ekki.“

Von á fleirum til landsins

Aðspurður hvort hann eigi von á fleira flóttafólki til landsins segir Sveinn svo vera. „Mér skilst að foreldrar annarrar konunnar séu komin yfir landamærin og munu koma hingað. Þá verða þau annað hvort hjá okkur eða einhverjum öðrum sem getur boðið híbýli sín tímabundið. Ég myndi halda að þetta væru í kringum 12 manns.“

Sveinn segir síðustu daga hafa snúist um að vinna úr hjálparbeiðnum vina, starfsmanna og fjölskyldu sinnar í Úkraínu.

„Sem betur fer hafa öll ríkin sem eitt, þar með talið Ungverjaland, tekið einstaklega vel á móti öllum flóttamönnum,“ segir Sveinn og bætir því við hvað Pólskir samlandar okkar á Íslandi hafi staðið sig vel, bæði í orði og verkum.

„Við ættum að taka okkur það til fyrirmyndar og þakka fyrir að þetta sé orðinn stór hluti Íslendinga,“ segir Sveinn.

Þeir sem geta aðstoðað Svein varðandi fatnað og dót fyrir börnin og konurnar sem von er á í kvöld geta haft samband við hann á Facebook-síðu hans hér að neðan.