Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vera brjáluð út í Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vegna ummæla hans í garð borgarstjóra. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur verið í veikindaleyfi frá því í síðustu viku vegna alvarlegrar sýkingar sem hann fékk í kviðarholið síðasta haust og hefur tekið sig upp að nýju.

„Er ekkert heilagt í pólitísku stríði? Það leikur sér enginn að því að veikjast og þegar um er að ræða eitthvað meira en flensu ætti fólk með vott af sómakennd að taka tillit til þess,“ segir Helga Vala á Facebook-síðu sinni. 

Í umræðu um bragga-málið svokallaða hefur Eyþór kallað eftir því að Dagur stígi til hliðar og axli ábyrgð í málinu. Umræður fóru fram á fundi borgarstjórnar um málið í nótt og óskaði þar Eyþór borgarstjóra góðs bata en sagði óþægilegt að hann gæti ekki verið á fundinum til þess að ræða stöðu mála og sagði að borgarstjóri væri yfir og allt um kring í því máli.

Helga Vala gagnrýnir Eyþór harðlega fyrir ummælin og segir það hryggja hana að heyra Eyþór „hamast af öllu afli“ á Degi þegar hann er veikur. 

„Auðvitað er það óheppilegt að fólk veikist. Hrein hörmung beinlínis á köflum og lífshættulegt á stundum. En það ræður enginn við það og þess vegna þykja það almennir mannasiðir að taka tillit til þess ef fólk glímir við veikindi, líka þegar um er að ræða ráðamenn og það eru fordæmi í náinni fortíð fyrir slíkri tillitssemi.“

Þá segir hún það leiki enginn vafa á því að þegar fólk veikist og um er að ræða meira en flensu ætti fólk með vott af sómakennd að taka tillit til þess. „ Þetta er ekki eitthvað sem gufar upp eða veldur stórkostlegu tjóni ef ekki er brugðist við í gær eða dag heldur verður þetta mál líka í næstu viku eða þarnæstu þegar Dagur hefur náð þeim styrk sem hann þarf. Svei þér Eyþór Arnalds.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gagnrýndi einnig minnihlutann í borgarstjórn í gær þar sem hún sagði ósmekklegt að ráðast gegn Degi þegar hann er í veikindaleyfi. „Mér finnst það ótrúlega ósmekklegt af oddvitum Sjálfstæðisflokksins að ráðast að Degi þegar hann er alvarlega veikur heima hjá sér og getur ekki svarað fyrir sig,“ sagði Heiða.