Það er líka þekkt að ýmislegt hefur áhrif á svefn annað en aldur. Hið augljósa er álag, streita og áhyggjur en þar má líka nefna áfengisneyslu sem almennt skerðir svefngæði okkar. Undirliggjandi sjúkdómar, kæfisvefn, lyfjanotkun og fíknisjúkdómar hafa töluverð áhrif í þessu samhengi. Vaktavinnufólk er einnig sérstakur áhættuhópur sem og þeir sem ferðast mikið á milli tímabelta líkt og flugþjónar og flugmenn.


Svefnskuld

Stundum þurfum við hreinlega að sofa meira en eðlilegt þykir t.d. við svefnskuld og þar sem við höfum gengið á batteríin okkar. Ófrískar konur hafa líka aukna þörf og þannig mætti lengi telja. Við vitum líka í dag að það er mjög margt sem skertur svefn getur leitt af sér í formi lífsstílssjúkdóma. Helst má þar nefna hjarta- og æðasjúkdóma, offitu og svo jafnvel tengingu við þróun krabbameina.

Svefntruflun ekki eðlileg

Ef við viljum nálgast svefntruflun með réttum hætti þarf að taka góða sögu og skoðun og átta sig á samhengi hlutanna og umhverfi einstaklingsins, enda er augljóst að þar geta verið einföld ráð til að bæta úr og skyldi alltaf byrja þar. Markviss meðferð líkt og hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur sýnt sig að vera mjög öflug og ætti að íhuga á undan svefnlyfjum.

Leiðréttingar á undirliggjandi vanda og sjúkdómum, skimun og meðferð gegn kæfisvefni er líka geysilega mikilvæg. Munum það að svefntruflun er ekki eðlilegt ástand og þarfnast skýringar ef hún er ekki augljós. Þá getur hún skapað ýmsa kvilla sem maður vill fremur vera án. Ef þú getur ekki leyst vandann sjálfur fáðu þá aðstoð fagfólks.