Svavar Gestsson, fyrrverandi Alþingismaður, ráðherra, ritstjóri og sendiherra, er látinn 76 ára að aldri. Guðrún Ágústsdóttir eftirlifandi eiginkona hans tilkynnti þetta fyrir stundu.
Svavar var áberandi stjórnmálaforingi á vinstri vængnum frá síðari hluta áttunda áratugarins og fram til aldamóta. Hann gegndi embætti viðskiptaráðherra frá 1978 til 1979 og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1980 til 1983. Árið 1988 var hann skipaður menntamálaráðherra og gegndi því embætti til 1991.
Árið 1999 var hann skipaður sendiherra og varð fyrst aðalræðismaður Íslands í Winnipeg í Kanada. Þar starfaði hann sem framkvæmdastjóri hátíðahalda Íslendinga vegna landafunda og landnámsafmæla í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna.
Starfaði lengi í utanríkisþjónustunni
Svavar varð síðan sendiherra í Stokkhólmi frá 2001 til 2005 og auk þess sendiherra Íslands í Bangladess, Srí Lanka, Pakistan, Serbíu, Búlgaríu og Albaníu. Hann var sendiherra í Danmörku 2005 til 2009 og jafnframt sendiherra í Ísrael, Slóveníu, Túnis, Tyrklandi og Rúmeníu. Hann var sérstakur fulltrúi utanríkisráðherra gagnvart Afríkusambandinu 2008.
Svavar ritaði fjölda greina um stjórnmál í blöð og tímarit. Út kom eftir hann 1995 bókin Sjónarrönd, jafnaðarstefnan - viðhorf. Sjálfsævisagan Hreint út sagt kom út 2012.

Svavar fæddist á Guðnabakka í Stafholtstungum 26. júní 1944. Foreldrar hans voru Gestur Zóphónías Sveinsson og Guðrún Valdimarsdóttir. Hann giftist Jónínu Benediktsdóttur ritara árið 1964 og átti með henni þrjú börn, Svandísi fædda 24. ágúst 1964, Benedikt fæddan 10. ágúst 1968 og Gest fæddan 27. desember 1972. Þau skildu og lést Jónína 29. maí 2005. Svavar giftist Guðrúnu Ágústsdóttur fyrrverandi forseta borgarstjórnar Reykjavíkur árið 1993.

Svavar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964. Þá gegndi hann embætti formanns Framtíðarinnar, nemendafélags skólans. Hann hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands sama ár auk þess sem hann hóf starf hjá Þjóðviljanum. Ári síðar varð hann ritstjóri Nýja stúdentablaðsins. Hann var við nám í Berlín 1967 til 1968. Svavar tók við starfi ritstjórnarfulltrúa hjá Þjóðviljanum árið 1969 og var ritstjóri hans frá 1971 til 1978. Hann var auk þess formaður Útgáfufélags Þjóðviljans árin 1976 til 1983.
Svavar var fyrst kosinn á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið í Reykjavíkurkjördæmi árið 1978 og sat síðan sem þingmaður Alþýðubandalagsins til 1995, þá Alþýðubandalagsins og óháðra 1995 frá 1999 og var formaður þingflokksins þann tíma.
Svavar ritaði fjölda greina um stjórnmál í blöð og tímarit. Út kom eftir hann 1995 bókin Sjónarrönd, jafnaðarstefnan - viðhorf. Sjálfsævisagan Hreint út sagt kom út 2012.