Rudy Giuliani, lögfræðingur Bandaríkjaforseta, hélt blaðamannafund í gær þar sem hann fór mikinn. Hann kenndi Venesúela um tapið gegn Biden því að kerfið sem atkvæðin í kosningunum væru talin í væru framleidd þar og að vörubílar með fullan farm af atkvæðaseðlum hefðu komið til margra staða í Michigan um miðja nótt.

Hann gat ekki sagt til um hverjir það voru sem sáu slíkan gjörning því að hann væri þá að kasta þeim fyrir hatursúlfa Demókrata. Hann bað fólk þó að trúa sér.

Þegar hér var komið sögu tók liturinn úr hári Giuliani að leka niður vanga hans og vakti það mikla kátínu meðal netverja sem voru enn að horfa. BBC slökkti meðal annars á útsendingunni. Þá var Giuliani búinn að segja að börn hefðu kosið, sumir hefðu kosið tvisvar og jafnvel þrisvar.

„Það verða mál höfðuð í Georgíu, annað í Arizona. Líka í Nýju-Mexíkó og eitt í Virginíu. Það eru aðrir þættir svikanna sem við getum ekki upplýst á þessum tímapunkti,“ hélt hann áfram áður en hann lauk sínu máli. „Vondu karlarnir stálu kosningunum frá Donald Trump.“