Mikil eftir­spurn er eftir bólu­efnum gegn CO­VID-19 um heim allan og ríki berjast um að tryggja sér nægjan­legt magn skammta fyrir þegna sína. Svartur markaður með bólu­efni er tekinn að myndast sem sér­fræðingar telja geta ollið miklum skaða, einkum þar sem oftast er um að ræða bólu­efni sem eru stolin, ónýt eða eru ekki raun­veru­leg bólu­efni.

„Það er engin spurning um að svartur markaður er að þróast. Allt sem er talið bjarga lífum, tryggja líf og er af skornum skammti skapar svartan markað,“ að mati vísinda­sið­­fræðingsins Arthur Caplan við New York Uni­versity-há­­skóla. Í mörgum til­fellum kemst lyfja­þjófnaður aldrei upp og því nær sem komið er að sjúk­lingnum í að­fanga­keðjunni er hættan á þjófnaði meiri segir Tom Knight, for­stjóri Invistics, sem sér­hæfir sig í að­fanga­keðju­stjórnun í heil­brigðis­þjónustu.

Fyrstu skammtarnir af bólu­efni Pfizer komu hingað til lands 28. desember.
Fréttablaðið/Anton Brink

Svartur markaður með lyf er engin ný­lunda. Ó­­prúttnir aðilar sækjast einkum eftir ópíóðum sem seld eru dýrum dómi á hinum svarta markaði. „Bólu­efni er lík­­legt til að seljast á háu verði á götunni sem gerir birgðir ríkja við­kvæmar fyrir þjófnaði sem og að efnunum sé beint annað en þangað sem þau eiga að fara nema tryggt sé að að­­fanga­­stjórnun sé örugg,“ telur Jon­a­t­han Cus­hing hjá sam­tökunum Tran­s­paren­cy International.

Flest ríki eru með for­­gangs­röðun á bólu­­setningum og bólu­­setja fyrst þá sem flokkaðir eru sem fram­línu­­starfs­­menn. Það getur þó verið teygjan­­legt hug­­tak og ein­hverjir komið sér í þann hóp sem ekki eiga þar heima að sumra mati. Í Banda­­ríkjunum hefur til að mynda starfs­­fólk í fjár­­mála­­geiranum verið skil­greint sem hópur sem setja þarf í for­gang hvað bólu­setningar varðar. Í Flórída var starfs­fólk hjá fyrir­tækinu WWE, sem rekur vin­sælar glímu­keppnir, skil­greint sem fram­línu­starfs­fólk og fékk bólu­efni fyrr en aðrir.

Það eru þó ekki einungis svarta­­markaðs­brask með bólu­efni sem veldur sér­fræðingum á­hyggjum. Í Banda­­ríkjunum eru dæmi um að efnað fólk með góð pólitísk tengsl komi sér fram fyrir í röð eftir bólu­efnum, til að mynda með því að fara til ríkja þar sem bólu­­setningar­her­­ferð hefur verið í miklum ó­­­lestri. Auk þess eru dæmi um að heil­brigðis­­starfs­­fólk og kennarar á ríkari svæðum séu bólu­­settir á undan þeim sem starfa á þeim sem fá­tækari eru.

Það er þó ekki bara bólu­efni sem glæpa­hópar sýsla með. Dæmi eru um í Evrópu, Afríku og Suður-Ameríku að vott­orð um nei­­kvæð CO­VID-19 próf gangi kaupum og sölum en þau gera fólki kleift að ferðast milli landa. Lög­regla í Frakk­landi hand­tók í fyrra glæpa­­menn sem seldu vott­orð fyrir nei­­kvæðum prófum fyrir tugi þúsunda á Charles de Gaul­­le-flug­velli í París. Í Bret­landi hafa komið upp mál þar sem nöfnum og dag­­setningum á prófum er breytt.

Franskir lögreglumenn.
Fréttablaðið/EPA