Mikil eftirspurn er eftir bóluefnum gegn COVID-19 um heim allan og ríki berjast um að tryggja sér nægjanlegt magn skammta fyrir þegna sína. Svartur markaður með bóluefni er tekinn að myndast sem sérfræðingar telja geta ollið miklum skaða, einkum þar sem oftast er um að ræða bóluefni sem eru stolin, ónýt eða eru ekki raunveruleg bóluefni.
„Það er engin spurning um að svartur markaður er að þróast. Allt sem er talið bjarga lífum, tryggja líf og er af skornum skammti skapar svartan markað,“ að mati vísindasiðfræðingsins Arthur Caplan við New York University-háskóla. Í mörgum tilfellum kemst lyfjaþjófnaður aldrei upp og því nær sem komið er að sjúklingnum í aðfangakeðjunni er hættan á þjófnaði meiri segir Tom Knight, forstjóri Invistics, sem sérhæfir sig í aðfangakeðjustjórnun í heilbrigðisþjónustu.

Svartur markaður með lyf er engin nýlunda. Óprúttnir aðilar sækjast einkum eftir ópíóðum sem seld eru dýrum dómi á hinum svarta markaði. „Bóluefni er líklegt til að seljast á háu verði á götunni sem gerir birgðir ríkja viðkvæmar fyrir þjófnaði sem og að efnunum sé beint annað en þangað sem þau eiga að fara nema tryggt sé að aðfangastjórnun sé örugg,“ telur Jonathan Cushing hjá samtökunum Transparency International.
Flest ríki eru með forgangsröðun á bólusetningum og bólusetja fyrst þá sem flokkaðir eru sem framlínustarfsmenn. Það getur þó verið teygjanlegt hugtak og einhverjir komið sér í þann hóp sem ekki eiga þar heima að sumra mati. Í Bandaríkjunum hefur til að mynda starfsfólk í fjármálageiranum verið skilgreint sem hópur sem setja þarf í forgang hvað bólusetningar varðar. Í Flórída var starfsfólk hjá fyrirtækinu WWE, sem rekur vinsælar glímukeppnir, skilgreint sem framlínustarfsfólk og fékk bóluefni fyrr en aðrir.
Það eru þó ekki einungis svartamarkaðsbrask með bóluefni sem veldur sérfræðingum áhyggjum. Í Bandaríkjunum eru dæmi um að efnað fólk með góð pólitísk tengsl komi sér fram fyrir í röð eftir bóluefnum, til að mynda með því að fara til ríkja þar sem bólusetningarherferð hefur verið í miklum ólestri. Auk þess eru dæmi um að heilbrigðisstarfsfólk og kennarar á ríkari svæðum séu bólusettir á undan þeim sem starfa á þeim sem fátækari eru.
Það er þó ekki bara bóluefni sem glæpahópar sýsla með. Dæmi eru um í Evrópu, Afríku og Suður-Ameríku að vottorð um neikvæð COVID-19 próf gangi kaupum og sölum en þau gera fólki kleift að ferðast milli landa. Lögregla í Frakklandi handtók í fyrra glæpamenn sem seldu vottorð fyrir neikvæðum prófum fyrir tugi þúsunda á Charles de Gaulle-flugvelli í París. Í Bretlandi hafa komið upp mál þar sem nöfnum og dagsetningum á prófum er breytt.
