Bandaríska dómsmálaráðuneytið undirbýr nú ákæru gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks samtakanna, en ákæran var birt fyrir mistök og greindi Washington Post fyrst frá ákærunni í gær. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir í samtali við Fréttablaðið að dagurinn í dag sé svartur dagur fyrir blaðamennsku.

Fréttir af ákæru bandariska dómsmálaráðuneytisins bárust eftir að hún var birt fyrir mistök með skjölum úr öðru dómsmáli. Sagði meðal annars í kærunni, sem aðstoðarsaksóknarinn Kellen Dwyer skrifaði, að leynd yrði að ríkja yfir kærunni „vegna mikils áhuga og þekkingar almennings á málinu svo hægt væri að handtaka Assange án þess að hann fái færi á því að flýja.“ Ekki er ljóst fyrir hvað Assange er ákærður en dómsmálaráðuneytið hefur sagt að birting gagnanna hafi verið mistök.

Líkt og flestir vita flúði Assange til sendiráðs Ekvador í London árið 2012 vegna handtökuskipunar á hendur honum vegna ásakana um kynferðisbrota sem nú hafa verið felldar niður og hefur hann dvalið þar síðan til þess að forðast framsal til Bandaríkjanna en hann á enn yfir höfði sér handtöku í Bretlandi fyrir að hafa ekki mætt til dómara.

Assange hefur alla tíð haldið því fram að umræddar ásakanir hafi sprottið upp vegna skjalaleka Wikileaks á ýmsum gögnum sem varða Bandaríkin og Bandaríkjaher.

Kristinn Hrafnsson segir að hjá Wikileaks hafi menn lengi reynt að benda á að þessi leið yrði eflaust farin, það er að segja, að birta ákæru á hendur Assange, fyrir óljósar sakargiftir.

Kemur ekki á óvart

„Þetta kemur auðvitað ekkert á óvart, þetta er það sem við höfum haldið fram lengi, að það væri ákæra í pípunum. Fyrstu fréttir sem eru sagðar af því bárust 2012, þegar Assange sækir um hæli í sendiráði Ekvador. 

Þetta staðfestir það sem við höfum haldið fram lengi, að heiftin er það mikil, að menn eru tilbúnir að stíga það grafalvarlega skref að lögsækja blaðamenn fyrir að sinna sínu starfi.“

Aðspurður, hvort það sé ekki óeðlilegt að ekki sé víst hvað sé verið að kæra Assange fyrir, segir Kristinn þetta vel þekkta aðferð.

„Eins og gengur og gerist þá fleygja menn út ákærum og vísa í fjölda lagabálka. Þetta er náttúrulega mjög alvarlegt mál. Það eina sem við getum gert er að gera nákvæmlega það sem okkur ber skylda til samkvæmt öllum grunnreglum blaðamennskunnar. Það á að fara um blaðamenn við þessi tíðindi.

Við höfum alltaf vitað að þetta hafi verið i gangi og á einhverjum tímapunkti yrði ákæra á Assange gefin út og mögulega á hendur annarra starfsmanna sem unnið hafa fyrir Wikileaks, meðal annars ég.“

Næstu skref erfið fyrir Assange

Kristinn segir að næstu skref fyrir Assange verði mjög erfið. 

„Núna er staða Julian þannig að það er búið að þrengja mjög að honum, nýr forseti tók við í Ekvador sem er hallur undir Bandaríkjastjórn og hefur svignað undir beinum þvingunum og þrýstingi þar sem öllu er beitt. Varaforsetinn meðal annars sendur í sérstakta ferð til þess að segja forsetanum að sigta Julian úr þessu skjólshúsi sem hann er í.

Úrræði hans eru ekkert sérstaklega mörg ef önnur ríki ætla að skirrast frá því að halda verndarhendi yfir blaðamönnum. Þá er náttúrulega fokið í flest skjól og tikkað í það box á uppsiglingu fasisma í heiminum, þegar gefin eru út ákærur á hendur ritstjórum, útgefendum og blaðamönnum.“

Kristinn segir jafnframt að ekki hafi verið á það hlustað þegar menn hjá Wikileaks hafi varað við að slíkum aðferðum líkt og umræddri ákæru, yrði að öllum líkindum beitt. 

„Það er einkennilegt að í gegnum tíðina hefur verið grafið undan þessum málflutning okkar um að það væri yfirvofandi málsókn og annað í þeim dúr. Að þetta væri einhverskonar fabjúlasjón. En þetta er staðfesting á því. 

Núna er bara að sjá hvort að bresk stjórnvöld ætli að halda áfram vera undir hælnum á Bandaríkjunum og það hvort að mannúðarsamtök og blaðamenn ætli að sitja hjá og horfa upp á þessa aðgerð. Þetta er svartur dagur fyrir blaðamennsku fyrst og fremst.“