Land­spítali á­ætlar að um fimm þúsund manns muni smitast af kóróna­veirunni á næstu vikum en Már Kristjáns­son, yfir­læknir smit­sjúk­dóma­deildar Land­spítala, greindi frá því í kvöld­fréttum Stöðvar 2 að staðan á Land­spítalanum sé að fylgja svart­sýnni hluta spá­líkans um inn­lagnir og sjúk­linga á gjör­gæslu.

Alls eru nú 21 sjúk­lingur inni­liggjandi á Land­spítala, þar af tveir á gjör­gæslu og annar þeirra í öndunar­vél. Sam­kvæmt spá­líkaninu er það sami fjöldi og myndi leggjast inn seinna í mánuðinum. Sé litið á svörtustu spár gæti fjöldinn þó náð 30 síðar í mánuðinum, þar af sex á gjör­gæslu á sama tíma.

„Það sem við erum að sjá núna er að við erum frekar að fylgja svart­sýnni spánni,“ sagði Már í kvöld­fréttum Stöðvar 2 en vísaði þó til þess að það geti ýmis­legt haft á­hrif á stöðuna, til að mynda er ekki gerður greinar­munur á þeim sem eru bólu­settir og þeim sem eru það ekki í spá­líkaninu.

Að sögn Más er erfitt að segja til um hvernig spítalinn muni geta brugðist við á­standinu. „Ef það er ekki hægt að sinna öllum þá líður ein­hver fyrir það. Hvort maður eigi að túlka það þannig að spítalinn þoli það ekki, er síðan svo­lítið annað mál,“ sagði Már.

Kemur í ljós hversu vel spítalinn ræður við bylgjuna

Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn, sagði í kvöld­fréttum RÚV að næsta vika muni skera úr um hvort spítalinn ráði við það álag sem hefur myndast í þessari bylgju. Ef ekki þyrfti mögu­lega að herða að­gerðir innan­lands. „Við höfum sagt það áður að við þurfum að vera til­búin að herða ef eitt­hvað fer að bresta.“

Land­spítali starfar nú á hættu­stigi, annað af þremur við­bragðs­stigum, og er mikið álag á öllum deildum spítalans. Í ljósi stöðunnar verður til að mynda ekki tekin upp hefð­bundin val­kvæð starf­semi á skurð­stofum eftir að sumar­fríum lýkur og hefur verið dregið úr starf­semi á göngu­deildum lyf­lækninga.

Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítala, greindi frá því í sam­tali við Frétta­blaðið í vikunni að tak­markandi þátturinn þegar kemur að störfum spítalans væri mönnun, ekki tækja­búnaður eða fjöldi rýma, en starfs­fólk hefur nú verið kallað inn úr sumar­fríi til að bregðast við á­standinu.