Lundar í Vestmannaeyjum verða fyrir ýmsum óhreinindum, aðallega vegna olíumengunar í Vestmannaeyjahöfn. Náttúrustofa Suðurlands birti mynd af lunda sem var þakinn svartolíu.

„Krónísk svartolíumengun í Vestmannaeyjahöfn,“ skrifar Náttúrustofa Suðurlands við færsluna sem var birt á Facebook í gær. Karen Lynn Velas líffræðingur tók myndirnar. Karen starfar í Vestmannaeyjum og fékk þjálfun við að þrífa dýr hjá stofnun í Bandaríkjunum. Hún sérhæfir sig í að annast villt dýr sem verða fyrir skaða og óhreinindum af völdum olíu.

Lundinn lifir einkum á fiski og flestar pysjurnar fara beint á sjóinn eftir að hafa yfirgefið holur sínar. Pysjur í Vestmannaeyjum villast stundum þar sem að lundabyggðin nálægt íbúasvæði.

Óvenjumargar lundapysjur lentu í olíu í höfninni árið 2017 að því er fram kemur í ársskýrslu Þekkingarseturs Vestmannaeyja.

Lundinn sem um ræðir á myndinni er þó ekki pysja, heldur fullvaxta lundi.

Umhverfis og auðlindaráðherra birti drög að breytingum á reglugerð um brennisteinsinnihald í fljótandi eldsneyti síðastliðinn maí. Gangi þær í gegn verður notkun svartolíu bönnuð innan íslenskrar landhelgi frá og með næstu áramótum. Erfitt er að hreinsa svartolíu sem lendir í sjó við sjóslys.