Hörður Hákon Jónsson er einn fárra á Íslandi í skaðaminnkandi skömmtunarmeðferð vegna morfínfíknar. Hann vill að meðferðin verði gerð fleirum aðgengileg. Hann segir fordóma of mikla og að veikt fólk sé gert að glæpamönnum. Hákon eins og hann er oftast kallaður opnar sig í von um skilning og fleiri úrræði.

Hákon segist fullviss um það að hægt sé að nýta þessa skaðaminnkandi meðferð fyrir fleiri lyf og að ef það yrði gert þá myndi svarti markaðurinn, með lyfseðilsskyld lyf, hrynja.

„Það er miklu betra fyrir fólk að fá þessi lyf hjá lækni. Þetta á ekki að vera í höndunum á einhverju fólki út í bæ sem er að reyna að græða peninga á veikindum annarra. Það hefur verið þannig í allt of mörg ár. Margir sem selja þessi efni eru ekki fíklar og það er á þeim svakaleg ábyrgð, sem þau fara bara ekkert alltaf vel með.“

„Það þarf að taka þessi lyf og efni frá söluaðilunum og setja þau í hendurnar á fagaðilum sem kunna að meðhöndla þessi lyf sem við erum háð, fólk sem er með menntun til þess. Þá þurfum við ekki að beygja og hneigja fyrir söluaðilum á svarta markaðinum og þetta er líka öryggismál fyrir okkur. Svarti markaðurinn blómstrar á meðan læknar taka ekki ábyrgð og skrifa út þessi lyf fyrir veikasta hópinn, að sjálfsögðu innan viðmiða og reglna.

Hákon segir að honum finnist best að fá lyfið í skömmtun á hverjum degi, og er mjög hreinskilinn með það að hann geti líklega ekki fengið meira í einu án þess að misnota það.