Bandaríski körfuboltamaðurinn Charles Thomas, sem lék á Spáni á áttunda áratugnum og hvarf síðan fyrir fjörutíu árum, er óvænt kominn í leitirnar.

Að sögn spænska blaðsins El País var Thomas ein af skærustu stjörnum körfuboltaliðs Barcelona. Eftir að hann meiddist á hné árið 1974 fór hins vegar að halla undan fæti og Thomas dró sig á endanum inn í skel.

„Eitt þekktasta andlit spænska körfuboltans varð að draugi,“ segir í El País.

Fyrir fjörutíu árum hvarf svo Thomas og skildi eftir sig vonsvikna fjölskyldu og vini. Síðast spurðist til hans í byrjun níunda áratugarins og var hann þá ýmist sagður hafa látist í slagsmálum í New York eða af of stórum eiturlyfjaskammti í húsasundi í Mexíkó.

Fyrir tveimur vikum birtist hins vegar uppfærsla á Wikipedia um Thomas, eða Svörtu perluna eins og hann var kallaður.

Fyrrverandi liðsfélagi Thomas í Barcelona, maður að nafni Norman Carmichael, fékk símtal frá miðstöð fyrir fatlað fólk í Amarillo í Texas. Kom þar á daginn, að sögn El País, að Svarta perlan var alls ekki látinn heldur sat og var að borða súpu á elliheimili.

Carmichael segist í fyrstu hafa haldið að verið væri að gabba sig. „En eftir því sem við töluðum meira saman rann upp fyrir mér að hann vissi of mikið til að vera að villa á sér heimildir,“ er haft eftir gamla liðsfélaganum.

El País ræddi í framhaldinu við Thomas, sem misst hafði báða fætur og er bundinn við hjólastól. „Ég fór út að ganga en nú er ég kominn aftur,“ svaraði Svarta perlan, aðspurður hvers vegna hann hefði beðið svo lengi með að láta vita að hann væri á lífi.