Helga Vala Helga­dóttir, for­maður stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefndar, segir að gerðar hafi verið í­trekaðar til­raunir til þess að boða Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son og Gunnar Braga Sveins­son á fund nefndarinnar til þess að ræða um­mæli Gunnars Braga um að honum hafi verið lofuð sendi­herra­staða. Þeir hafi bæði verið boðaðir sím­leiðis og með tölvu­skeytum, en að engin svör hafi borist. Ekkert verður því af fundinum í dag. 

„Það er skrif­stofa nefndar­sviðsins sem annast fundar­boðin og var það gert í­trekað. Fundurinn átti að vera opinn og slíkir fundir krefjast á­kveðinnar skipu­lagningar og þess vegna var farið í það um leið að hafa sam­band við þá,“ segir Helga Vala í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Sjá einnig: Fundi frestað því hvorki náðist í Sigmund né Gunnar Braga

Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra og Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra, sem einnig voru boðaðir á fundinn, svöruðu fundar­boðinu um hæl, að sögn Helgu Völu. Hún segir svar­leysi Mið­flokks­manna senda vond skila­boð til sam­fé­lagsins, enda mikil­vægt að fólk virði eftir­lits­skyldu nefndarinnar. 

„Það er ó­heppi­legt að þeir skuli ekki virða fasta­nefnd þingsins, sem hefur þessa ríku eftir­lits­skyldu, við­lits,“ segir Helga Vala 

Að­spurð segir hún að ekki sé komin ný dag­setning á annan fund, en að ó­lík­legt sé að hann verði á þessu ári.