Breytingar á Óðinstorgi, sem lokið var við í sumar, kostuðu alls 60 milljónir, en ekki hálfan milljarð eins og Vigdís Hauksdóttir hélt fram fyrr á árinu. Þetta kemur fram í færslu borgarstjóra, Dags. B. Eggertssonar, á Facebook-síðu hans.
Ástæða færslunnar er fyrirspurn Vigdísar um kostnað, en ekki aðeins við torgið sjálft heldur einnig við gatnaframkvæmdir í kring. Þar voru lagnir og veitur gríðargamlar, að sögn Dags, og komnar á tíma. Í svari fjármálasviðs eru lagðar saman framkvæmdir við torgið en einnig endurgerð Skólavörðustígs, Óðinsgötu, Spítalastígs, Týsgötu, Lokastígs, Freyjutorgs, Freyjugötu, Bjargarstígs og Óðinsgötu við Freyjutorg.
„Borgarráð fékk svarið í morgun. Óðinstorg sjálft kostaði rúmar 60 milljónir. Vigdís lagði hins vegar saman kostnað við torgið og allar göturnar og fullyrti svo í bókun og nú á Facebook að torgið hefði kostað hálfan milljarð. Kannski ætti ég ekki að verja tíma mínum í að eltast við Vigdísi en finnst samt rétt að halda hinu sanna til haga,“ segir Dagur í færslunni.
Ekki hans hugmynd
Dagur segir einnig að borgin og borgarbúar geti verið stolt af umbreytingu torgsins og að þótt svo að Vigdís hafi viljað eigna honum heiðurinn af því þá verði hann að afþakka hann.
„Tillaga um að endurvekja og endurgera Óðinstorg var frá Evu Maríu Jónsdóttur sjónvarpskonu í því sem þá hét Miðborgarstjórn. Hún var þar sem fulltrúi íbúa um síðustu aldamót. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fór fyrir umhverfis- og samgönguráði árið 2008 þegar það samþykkti að ráðast í samkeppni um torgið. Verkefnið var eitt af fjölmörgum sem frestaðist eftir hrunið,“ segir hann í færslunni.
Færsluna má sjá hér að neðan ásamt myndum sem Dagur deildi af torginu fyrir og eftir framkvæmdir.
Borgin og borgarbúar geta að mínu mati verið stoltir af umbreytingu Óðinstorgs. Tek eftir því að Vigdís Hauksdóttir og...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Thursday, 10 December 2020