Lögreglumaðurinn Bjarni Ólafur Magnússon, sem ákærður er fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og brot í opinberu starfi, lýsti æsilegri atburðarás við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Lýsti hann atburðarrás frá því lögreglan á Suðurlandi fékk tilkynningu um heimilisofbeldi í Laugarási í maí í fyrra þar til meintur heimilisofbeldismaður velti bíl sínum á Þjórsárvegi eftir eftirför tveggja lögreglubíla.

Bjarni er sakaður um að hafa ekki hafa gætt lögmætra aðferða í eftirförinni og er ágreiningur milli ákæruvalds og varnar um hvort Bjarni tók rétta ákvörðun þegar hann þvingaði jeppann út af veginum.

Gekk berserksgang á gröfu við heimili sitt

Bjarni sagði lögregluna á Suðurlandi hafa fengið tilkynningu um heimilisofbeldi í Biskupstungum sem var lýst þannig að maður gengi berserksgang á gröfu fyrir utan heimili sitt þar sem voru innanhúss þáverandi eiginkona mannsins og þrjú lítil börn.

Í tilkynningu til lögreglu kom fram að maðurinn, Ingvar Örn Karlsson, hafði verið við drykkju í á annan sólarhring og hann hafi verið ógnandi bæði við konuna og börnin.

Tók netið úr sambandi og rak hníf í gegnum síma

Bjarni sagði í skýrslu sinni að það hafi valdið þeim lögreglumönnum, sem fóru í útkallið, áhyggjum að hvorki hafi náðst í konuna né manninn í síma meðan ekið var að vettvangi, en síðar hafi komið í ljós að Ingvar hafði rekið hníf í gegn um síma sinn; tekið bæði net og símasamband af húsinu og tekið farsímann af konunni.

Ingvar hefur þegar verið ákærður fyrir atburði þessa kvölds og hlotið skilorðsbundinn dóm fyrir. Fyrrverandi eiginkona Ingvars, sem gaf einnig skýrslu fyrir dómi, sagði ástand hans hafa verið mjög slæmt áður en hann fór af heimilinu; hann hafi verið mjög reiður og ógnandi gagnvart henni og börnunum en yngsta barnið var aðeins nokkurra vikna gamalt þegar atburðirnir urðu.

Í skýrslu Bjarna kom fram að lögreglan hafi farið á tveimur bílum í forgangsakstri í átt að vettvangi að Laugarási en þegar lögregla nálgaðist vettvang hafi hún mætt jeppa mannsins á 114 kílómetra hraða og hófst þá eftirför með ljósmerkjum og hljóðmerkjum og hafi manninum því verið ljóst að tvær lögreglubifreiðar veittu honum eftirför.

Þvingaði annan lögreglubílinn út af

Á upptökum sem spilaðar voru í dómsal sést hvar jeppinn, sem hélt sig yfirleitt á miðlínu vegsins og á um það bil 90 km. hraða, þvingaði aðra lögreglubifreiðina út af veginum þegar hún reyndi að komast fram fyrir bílinn. Bæði jeppinn og annar lögreglubíllinn fóru út af veginum við þetta en á upptökunum sést hvar jeppinn jeppinn kemur inn á veginn aftur skömmu síðar og eftirförin heldur áfram.

Ákvað að keyra aftan á jeppann

Bjarni greindi frá því að ákveðið hefði verið að reyna að stöðva bíl mannsins á tilteknum stað en fullreynt hafi verið að reyna að komast fram fyrir bílinn. Sagðist hann hafa látið félaga sína vita að hann hygðist reyna að fara á vinstra horn bílsins til að þvinga hann af veginum. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við það.

Á upptöku sem sýnd var í dómsal sést hvar lögreglubíll ekur þrívegis á vinstra horn jeppans með þeim afleiðingum að ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni sem snerist á veginum, fór út af honum, valt tvær veltur og endaði á réttum kili.

Í ákæru kemur fram að við veltuna hlaut ökumaðurinn brot á sjöunda hálslið og 10 sentímetra langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu. Hann lamaðist um tíma eftir veltuna en lömunin hefur gengið til baka í dag.

Samskonar aðferð aldrei áður leitt til ákæru

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurði ákærða hvort hann mæti það svo að um lögmæta aðferð við að stöðva ökutækið hefði verið að ræða og hann játti því að hann teldi svo vera. Hann segir ekki hafa komið til að greina að hefja beina eftirför. Hann sagði að meðvituð ákvörðun hefði verið tekin að beita þeirri aðferð sem notuð var til að stöðva bílinn. Valinn hafi verið eins öruggur vegkafli til áreksturs og völ var á.

Verjandi spurði hvort hann væri enn þeirrar skoðunar að réttri aðferð hafi verið beitt og kvað hann já við því. Sérstök árekstursgrind hafi verið á lögreglubílnum og aðferðir á borð við þessa hafi ítrekað verið æfðar hjá lögreglu. Samskonar aðferðum hafi ítrekað verið beitt áður og aldrei leitt til ákæru á hendur lögreglumönnum.

„Mig langaði bara að fá frið“

„Mig langaði bara að fá frið“ sagði Ingvar Örn Karlsson, ökumaður jeppans sem næstur gaf skýrslu við aðalmeðferðina, aðspurður um ástæður ökuferðarinnar sem leiddi til umræddra atvika. Hann sagðist hafa spurt sig milljón sinnum hvers vegna hann stöðvaði ekki bílinn þegar eftirför lögreglu hófst. Hann gat enginn svör gefið við þeirri spurningu. Hann gekkst við því að viðbrögðin hefðu alls ekki verið rétt.

Ingvar fékk, sem fyrr segir, skilorðsbundinn dóm vegna atburða kvöldsins.

Aðalmeðferðin heldur áfram fram eftir degi.