Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og frambjóðandi Viðreisnar, segir gagnrýni Haraldar Freys Gíslasonar, formanns Félags leikskólakennara, á sérstakan leikskóla fyrir Landspítalann koma á óvart.
„Það kemur því á óvart að kennaraforystan setji sig upp á móti þessari hugmynd sem felur í sér gríðarlega aukin lífsgæði fyrir börn og barnafjölskyldur. Það eru líka hagsmunir kennarastéttarinnar að það sé aukinn fjölbreytileiki þegar kemur að starfsumhverfi kennara. Með auknum fjölbreytileika hafa kennarar meira val og það er gott,“ segir Þórdís Jóna í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hún svarar gagnrýni Haraldar og áréttar að þessi leikskóli eigi ekki að vera „bara gæsla“ heldur muni þar fara fram menntun í hæsta gæðaflokki. Það verði alvöru leikskóli.
Haraldur Freyr sagði fyrir helgi að hugmyndin væri „arfavitlaus“ og að hún byggi á hugmynd um að leikskólinn eigi að vera eitthvað annað en það sem hann er skilgreindur til að vera, menntastofnun fyrir börn.
„Landspítalinn er rekinn af ríkinu. Ef ríkið vildi vera með einhverskonar helgar-, kvöld- og mögulega næturpössun fyrir sitt starfsfólk myndi það einfaldlega gera það. Að sveitarfélag sé að leggja það til og taka þátt í að fjármagna er að mínu mati í meira lagi sérstakt. Fyrir utan það að slíkt úrræði út frá þeim lögum sem gilda um leikskóla væri aldrei skóli heldur eitthvað allt annað.“
Dvalartíminn breytist ekki, heldur tímasetning hans
Þórdís Jóna segir í grein sinni að dvalartími barna verður sá sami og á öðrum leikskólum en að það eina sem breytist er hvenær börnin eru á leikskólanum.
„Leikskóli Landspítalans yrði frábrugðinn öðrum leikskólum að því leyti að sveigjanleiki hans yrði meiri. Þarna væri skóli sem opnar um 7.00 á morgnana og er opinn til 19.00, alla daga. Það að leikskóli opni aðeins fyrr og sé opinn fram að kvöldmat kollvarpar ekki hugmyndinni um hvað leikskóli er. Foreldrar barna sem starfa á sjúkrahúsinu munu líkt og allir foreldrar gera miklar kröfur um gæði leikskólans,“ segir Þórdís Jóna.
Hún segir að sú staða sem uppi er núna, þar sem foreldra sem vinna innan spítalans, mest konur, þurfa að koma börnum í pössun utan hefðbundins vinnutíma leikskólans, sé heldur ekki börnum fyrir bestu og að með þessum nýja leikskóla væri betur hægt að koma til móts við fólk sem vinnu vaktavinnu.
„Hugmyndin er góð því slíkur leikskóli styður við stöðugleika í lífi barna. Hún er góð því svona skóli dregur úr álagi fjölskyldna sem er mikið fyrir. Líf fólks sem færir fórnir vegna vaktavinnu þarf að verða einfaldara og betra. Þannig tryggjum við gæði þjónustu á sjúkrahúsinu og drögum úr líkum á manneklu,“ segir Þórdís Jóna.