Í september síðastliðnum liðu að meðaltali 29 dagar frá því að kona fór í leghálsskimun á heilsugæslu þar til hún fékk niðurstöðu. Í janúar 2020 var meðalsvartími hátt í 240 dagar.

Þetta kemur fram á vef Heilsugæslunnar.

Stysti svartíminn í september var þrettán dagar. Þá fengu 99 prósent kvenna svar á innan við 40 dögum. Um síðustu áramót færðist leghálsskimun frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar.

Skimunin kostar 500 krónur en áður gat kostnaður hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins verið um fimm þúsund krónur og hjá kvensjúkdómalækni allt að 8 til 10.000 krónur.