„Við erum að svara ákalli frá foreldrum sem vita ekki hvert þau eiga að leita og eru svolítið týnd,“ segir Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar, í samtali við Fréttablaðið, um fræðslukvöld sem haldið verður á þriðjudaginn í næstu viku. Á viðburðinum býðst aðstandendum hinsegin ungmenna að fræðast um hvernig þau geta best veitt þeim stuðning.
Erindi halda Sigríður Birna, ráðgjafi Samtakanna '78, Aldís Ólafsdóttir, ráðgjafi Samtakanna '78, og Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna '78 og Tjarnarinnar.
„Þetta eru þannig þrjú öfl að sameinast í að aðstoða foreldra í að styðja við hinsegin ungmenni,“ segir Hrefna.
Hún segir að misjafnt sé hvað það er sem foreldrar helst hafi áhyggjur af.
„Foreldrar trans barna eru ekki að „díla við“ það sama og foreldrar annarra hinsegin barna. Það fer eftir hverju tilfelli fyrir sig, en flestir eiga foreldrarnir það kannski sameiginlegt að tengja ekki við þessa innri baráttu sem krakkarnir eru í. Þetta snýst því aðallega um það, að útskýra hvað fer fram í höfði krakkanna og hvaða breytingar þetta eru. Hvað þau geta gert til að styðja við krakkana almennt og hvert sé hægt að vísa þeim, ef þau sjálf, foreldrarnir, eru óörugg,“ segir Hrefna.
Ekki aðeins ætlað foreldrum
Hún segir að viðburðurinn sé ekki aðeins fyrir foreldra, heldur alla fjölskylduna og þá sem eru í nærumhverfi barnsins.
„Þetta hefur áhrif á alla í kringum barnið.“
Hrefna segir að það mikilvægasta sem fólk geti gert sé að vera til staðar fyrir barnið og hlusta á það sem það hefur að segja.
„Að leyfa krökkunum að segja sína sögu og trúa þeirra sögu,“ segir Hrefna. Hún segir að mörgum þeirra finnist eins og þeim sé ekki trúað þegar þau segi frá.
„Fyrir tíu árum var þetta ekki til umræðu hjá svo ungum krökkum, meira að segja fyrir fimm árum,“ segir Hrefna.
Hún segir að með aukinni þekkingu og fræðslu þá fari krakkar og ungmenni að pæla í alls kyns hlutum sem tengjast ást, rómantík og kynlífi miklu fyrr.
„Það er nýr raunveruleiki líka fyrir okkur öll sem störfum með börnum og ungmennum. Um leið og börn og ungmenni fara að spá í ástinni og tilfinningum þá byrjar þau einnig að spá þessu, sama hversu gömul þau eru á því tímabili. Það er orðið partur af tilfinningalífi barna og ungmenna, að máta sig í sínum raunveruleika að því hverjum þau laðast að eða hvern þau vilja eiga sem sinn lífsförunaut og svo framvegis,“ segir Hrefna.
Ókeypis er inn og að viðburðurinn fer fram á íslensku. Gott aðgengi er fyrir hjólastóla. Viðburðurinn hefst með erindum og í lokin verður opnað fyrir spurningar og umræður.
Nánari upplýsingar er að finna hér á Facebook um viðburðinn.