Sumar kvikmyndir tengja áhorfendur við sína eigin sögu. Sum verk gera þetta á hátt sem kemur jafnvel aftan að þeim. Í Svar við bréfi Helgu er verklag og verkkunnátta fyrri alda mjög áberandi, þar sem sagan gerist í sveit á fjórða áratug síðustu aldar. Þekking sem hefur glatast flestum nútíma Íslendingum.

Þorvaldur Davíð með orf og ljá

„Þetta eru forréttindin við starfið að fá tækifæri til að prófa nýja hluti. Að ímynda sér að vera manneskja, búandi á þessum stað, í þessari sveit fyrir þetta mörgum árum síðan,“ segir Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari um vinnubrögð sem hann þurfti að tileinka sér fyrir hlutverk aðalpersónunnar Bjarna, sem er bóndi á Ströndum. Í myndinni má sjá Þorvald slá með orfi og ljá og meðhöndla sauðfé við fjárkláða, svo að dæmi séu nefnd.

„Tíðarandinn, og hvernig fólk hegðaði sér og talað var allt annað,” segir hann. Þorvaldur útskýrir að í aðferðafræði leikarans sé oft talað um þrjá hringi, innsta miðju og ysta hring. „Það er sérstaklega áhugavert að skoða þetta hlutverk og söguheiminn út frá því sjónarhorni,“ útskýrir hann. „Í ysta hring tekur þú heimspeki þess tíma, tíðaranda, pólitík, hvað er að gerast á heimsvísu. Í miðju hringnum ertu kominn í hvað er að gerast í þessari sveit og á þessum stað. Svo færirðu þig í innsta hringinn, og þá ertu kominn í tilfinningalífið. Þar sem ástin ríkir og hún er tímalaus.“

Þorvaldur segist hafa fengið smjörþefinn af sveitalífinu í gegnum leikstjórann Ásu, þegar hann vann við kvikmynd hennar Svaninn sem tekin var upp í heimasveit leikstjórans í Svarfaðardal. „Já, þegar þú ert í sveit berðu þig öðruvísi, ef þú ert vinnandi maður á sveitabæ. Til að það sé trúverðugt á skjánum þarftu sjálfur að fara í gegnum ferlið að trúa því að þú getir gert þetta,“ segir Þorvaldur.

Tilfinningalegt handrit hvers tíma

„Ég held að girðingin standi enn þá, sem þú reistir,“ svarar Ása glettin. Leikstjórinn vill þó meina að ekki allt hafi breyst þó að heimurinn sé breyttur og sameiginlegan þráð megi finna kynslóð fram af kynslóð.

„Mér finnst áhugavert, þar sem þetta er fyrsta períódu myndin sem ég geri, að skoða að hvaða leyti tilfinningalíf okkar er eins,“ segir hún. „Hver öld, hver tími og staður er með ákveðið tilfinningalegt handrit sem þú mátt fylgja eða getur fylgt. Mig langaði með þessari mynd að gera það sem kallast á ensku emotionally contemporary period film, mynd sem væri tilfinningalega nútímaleg,“ segir Ása og bætir við að þannig sé sagan ekki mjög framandi þó að hún sé sett í handrit þess tíma. Hún nefnir að ýkt dæmi um slíkt sé verðlaunamynd Yorgos Lanthimos The Favourite.

Ása Helga segist hafa valið leikhópinn út frá einstakri getu leikaranna til að fara á mikið tilfinningalegt dýpi.
Fréttablaðið/Ernir

„Mér finnst það spennandi. Ég fór að hugsa um ömmur mínar og afa, og langömmu mína sem var sex barna ekkja þrjátíu og sex ára. Fólk var að díla við sömu hlutina og átti góða og slæma daga í hjónabandinu, var í tilvistarkreppu og óvisst um næstu skref í lífinu,” segir hún.

Ekki hennar ær og kýr

Hera svarar að þó að eldri kynslóðin ræði hlutina ekki endilega jafn opinskátt, sé oft um sömu stef að ræða. „Samhengið er kannski bara aðeins annað.“

Hera fer með hlutverk Helgu, konunnar á næsta bæ sem Bjarni verður ástfanginn af. Helga og Bjarni eru bæði gift öðru fólki og persónurnar eiga í stormasömu forboðnu ástarsambandi sem er meginstef myndarinnar.

„Bjarni er algjör bóndi í mínum augum. Ég upplifði Helgu svona, eins og hún hefði draum um eitthvað stærra, borgina. Hún er meiri nútímakona,“ segir Hera. „Það er kannski það sem keyrir þau í sundur að miklu leyti,“ bætir Ása við.

„Helga sér um býlið að miklu leyti sjálf, af því að Hallgrímur er alltaf í burtu. En þetta er samt ekki hennar passjón. Ég nálgaðist þessa vinnu þannig. Að þetta væru kannski ekki hennar ær og kýr,“ segir Hera og hlær.

Þorvaldur segist sammála því og segir að það sé einmitt það sem persóna Bjarna elskar í fari Helgu. „Hún er öðruvísi og vill fara í borgina. Hugsar um bókmenntir og vill fara í huganum eitthvert annað,“ segir Þorvaldur. „Hann vill það líka en hann er svo bundinn jörðinni að hann getur ekki farið úr sveitinni. Þar er togstreitan.“

Aðgengi að hráum tilfinningum

Ása Helga segist hafa mikinn áhuga á að sjá hráar tilfinningar á skjá. „Ég valdi þessa leikara af því að þau eru til í að fara þangað. Virkilega dvelja í allskonar tilfinningum og óreiðu sem er spennandi.“ Ása útskýrir að sú nálgun hafi einnig skilað sér í vinnu hennar og myndatökumannsins Jasper Wolf. Áherslan á „handheld“ stíl hafi orðið meiri.

Persónurnar í myndinni tala sín á milli með nútímalegri framburði en gæti hafa tíðkast til sveita á fjórða áratugnum. Aðspurð um listrænar ákvarðanir hvað varðar framsögn, svarar Ása.

„Það gerist oft þegar kvikmyndagerðarmenn fara að gera períódu mynd fara þeir í einhverjar stellingar,“ segir hún. „En ég vildi frekar halda þessu hráu og svona, já, þannig að maður væri alltaf með aðgengi að tilfinningum persónanna,“ segir Ása.

Hera segist sammála því. „Þetta er klassísk saga og grunnlínan er beisikk mannlegar tilfinningar og aðstæður. Gæti gerst hvar sem er. Eins og með mörg góð leikrit og kvikmyndir. Þetta er eins og með Shakespeare, þú getur tekið sögu og það sem skiptir máli er ekki endilega hvernig fólk talaði. Þessi mynd snerist um það að segja sögu sem er jafn viðeigandi í dag og á morgun eða fyrir hundrað árum síðan,“ segir Hera.

„Ég held að við séum að þessu til að hreyfa við fólki,“ svarar Þorvaldur. „Maður hefur einhverja tjáningarþörf líka. Maður vill hafa áhrif á fólk og ég held að maður geri það með að einbeita sér að því, frekar en um hugmynd um eitthvað. Hugmynd um períódu eða hugmynd um manninn sem er í sveit. Frekar: Hver er manneskjan, hver er ástin? Fara í grunninn á þessu.“

Vildi engu við bókina bæta

Ása segir bók Bergsveins Birgissonar, sem myndin byggir á vera mikið listaverk. „Og tungumál bókarinnar er stórkostlegt. Mér fannst ekkert við það að bæta í bíómyndinni. Ég var að skoða aðra hluti.“

„Þegar ég frétti af hugmyndinni um að gera kvikmynd úr þessu, þá hugsaði ég: Hvernig á það að fara að gerast?“ segir Þorvaldur og hlær. „En svo var ég með handritið hennar og var auðvitað búin að vinna með henni áður, þannig að ég vissi að þetta væri í öruggum höndum.“

Maður vill hafa áhrif á fólk og ég held að maður geri það með að einbeita sér að því, frekar en um hugmynd um eitthvað. Hugmynd um períódu eða hugmynd um manninn sem er í sveit. Frekar: Hver er manneskjan, hver er ástin? Fara í grunninn á þessu.

Hera segist hafa lesið bókina í fyrsta sinn þegar hún fékk hlutverkið. „Mér fannst að einhverju leyti mitt hlutverk að koma með aðra rödd inn sem var svona, okkar Helga. Líka af því að Helga í bókinni, er auðvitað Helgan hans Bjarna. Mér fannst ég verða að gefa Helgu sína eigin rödd,“ segir Hera.

Tengir sjálf við allar persónur

Ása segir að þegar hún hafi byrjað að aðlaga verkið hafi ástarþríhyrningurinn verið beinagrindin í handritinu. Bjarni, Helga og Unnur. Allir karakterar þyrftu þannig að hafa eitthvað til síns máls, eins og mótrök.

„Ég sjálf tengi við þau öll þrjú. Stundum er maður Bjarni, stundum Unnur, stundum Helga. Mig langar að vera meiri Helga,“ segir hún og hlær. Hún minnist tilvitnunar sem hljóði á þá leið að sannleikurinn sé ekki þekking sem ein manneskja býr yfir, heldur verði sannleikurinn til á milli fólks. „Einhvern tímann las ég líka að skilgreiningin á tragedíu væri eitthvað þar sem allir hafa rétt fyrir sér. Af því að það er enginn einn sem er sigurvegarinn í lokin. Það eru þrjár milljónir hliða á hverju einasta máli,“ segir hún.

„Þessir karakterar eru líka erkitýpur og standa fyrir ákveðin element Helga er frelsi og hreyfing. Bjarni er jörðin og rótin,“ bætir Hera við.

Orgelsena spunnin á staðnum

Blaðamaður spyr hvort að persóna Unnar, sem Aníta Briem leikur, standi mögulega fyrir hefðina. Ása segir að í því samhengi megi nefna senu þar sem persóna Unnar leikur á orgel. Senan kom til í spuna á setti og orgelið var á staðnum fyrir tilviljun.

Upphaflega hafi Ása og tökumaðurinn séð Anítu spila á orgelið milli sena og tekið það upp.

„Svo vorum við í raunverulegum réttum í Árneshreppi og ég heyri Anítu syngja Blessuð sértu sveitin mín, eins og hún sé bara fædd og alin þarna upp,“ segir Ása. „Aníta er ættuð að norðan og það er fullt af prestum í ættinni hennar, og ég sá allt í einu einhverja hlið, karakter og hugsaði: Já, þetta! Þetta er svolítið Unnur. Prestsdóttirin Unnur. Þá endurskrifaði ég senuna, eftir að hafa séð þetta. Og bað Anítu að spila Blessuð sértu sveitin mín á orgelið.“

Blaðamaður sló á þráðinn til í Anítu Briem, sem er þessa dagana önnum kafin við tökur á nýjum sjónvarpsþáttum í leikstjórn Katrínar Björgvinsdóttur, As Long as We Live, sem frumsýndir eru eftir áramót. Aníta skrifar handrit þáttanna og með önnur hlutverk fara, meðal annarra, Hilmir Snær og Martin Wallström.

Áhugaverður leiðangur

Í fyrstu las Aníta fyrir hlutverk Helgu, en síðan hringdi Ása í hana og bað hana að lesa fyrir hlutverk Unnar. „Þá útskýrði hún fyrir mér hvaða sögu hún vildi segja, sem var þessi þríhyrningur. Í bókinni er þetta meira saga Helgu og Bjarna, en við erum að kanna aðeins út fyrir það svæði,“ segir Aníta.

Aníta bendir á að persóna Unnar sé í stöðu sem margar konur voru í á þeim tíma, sem giftust í annan landshluta og sáu jafnvel fjölskyldu sína aldrei aftur. „Hún er búin að slíta sig frá sinni jörð og fjölskyldu, kemur vestur og á engan að nema hann. Þess vegna er lífið í húfi fyrir þau öll, alltaf,“ segir hún.

„Bjarni er fastur á milli þess hvað það er að fylgja hjartanu, og að fylgja því sem er hans fjölskylda og arfleifð, og hver hann er. Jörðin á hann og hans land og án þess veit hann ekki hver hann myndi verða.“

Aníta segir leitin að persónu Unnar hafa verið gefandi verkefni. „Það er áhugavert að fara í þennan leiðangur, hver Unnur er, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfðum úr bókinni. Eins og við nálgumst söguna er hún kona sem þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun. En á þessum tíma voru engin orð yfir það og engin tækifæri til að díla við eitt eða neitt. Þar af leiðandi eru allir að burðast með sína sorg í sínu horni, og refsa sjálfum sér. Út úr því vex allskonar biturð og reiði, sársauki og sár sem ekki er talað um.“