„Þær koma hingað á hverjum einasta degi og hafa gert það núna í rúmlega mánuð,“ segir Laura Pasztor, verslunarstjóri Krónunnar í Seljahverfi, um andahóp sem hefur gert sig heimakominn fyrir utan verslunina svo athygli hefur vakið.

„Þær eru greinilega frekar svangar og viðskiptavinir hafa verið að gefa þeim, enda eru þær rosalega gæfar og koma þess vegna bara aftur og aftur,“ segir Laura. Þegar ljósmyndara blaðsins bar að garði kom andaskarinn á sprettinum á móti honum.

Gæfar endurnar hafa vakið athygli íbúa. „Fólk segir að þær viti hvar eigi að sníkja mat,“ skrifar íbúi nokkur í umræðum um endurnar á samfélagsmiðlum. „Jú, í lágvöruverðsverslun.“

Laura segist halda að mögulega sé ekki öllum viðskiptavinum jafn skemmt yfir öndunum sem geti verið nokkuð ágengar, svo gæfar eru þær.

„En langflestir elska þær. Þær virka líka þannig á okkur að þær virðast vera kátar og margir hafa keypt brauð hérna til að gefa þeim og aðrir hafa tekið myndir af sér með þeim hér, enda þyrpast þær að fólki ef það gefur þeim einhvern gaum,“ segir Laura.

Pasztor, verslunarstjóri Krónunnar í Seljahverfi.

Hún viðurkennir hlæjandi að þetta sé í fyrsta skiptið sem andahópur hafi gert sig heimakominn fyrir framan verslunina. Þær séu vinsælar meðal starfsfólks.

„Við elskum þær. Þær eru líka svo sætar og mjög almennilegar, við erum farin að verða þeim mjög kunnug. Stundum labba þær meira að segja inn í búðina og þá höfum við þurft að reka þær út,“ segir Laura hlæjandi.

Hún er til í að fallast á að þarna séu nýir starfsmenn Krónunnar á ferðinni. „Það mætti alveg segja það. Þær eru eiginlega starfsmenn og viðskiptavinir á sama tíma,“ segir Laura sem bætir því við að þær séu alltaf tímanlega á ferðinni.

„Þær birtast alltaf um hádegisbil, rúmlega ellefu eða tólf en alls ekki snemma.“

Þetta gefur til kynna að þær séu ekki A-týpur. „Nei, alls ekki!“