Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og nefndarmaður í kjöbréfanefnd, vill að kosningar í Norðvesturkjördæmi teljist ógildar.

Þetta kemur fram í nefndaráliti hennar á vef Alþingis.

Svandís telur réttast að uppkosning þurfi að fara fram í Norðvesturkjördæmi.

Kjörbréfanefnd Alþingis lauk störfum í morgun og hefur nú birt fjögur nefndarálit með tillögum í talningarmálinu í Norðvesturkjördæmi.

Þingfundur er nú í fullum gangi og er stefnt á afgreiðslu málsins í dag með atkvæðagreiðslu.

Svandís leggur til að öll kjörbréf nema kjörbréf Norðvesturkjördæmis teljist gild.

Óljóst hvort framkvæmdin hafi haft áhrif á kosningar

Í áliti sínu segir Svandís að ekki hafi tekist að sannreyna með vissu hvort annamarkar á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjödæmi hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninga eða ekki.

„Fyrir liggur að alvarlegir annmarkar voru á framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi, þ.e. ótrygg varðveisla kjörgagna í opnum sal og umferð oddvita kjörstjórnar við kjörgögn í einrúmi. Eftir ítarlega rannsókn undirbúningsnefndar hefur ekki reynst unnt að staðreyna með vissu hvort þessir annmarkar höfðu áhrif á niðurstöðu kosninganna, eða ekki. Fyrir liggur jafnframt að aðeins örfá atkvæði, til eða frá, höfðu nokkuð víðtæk áhrif á niðurstöðu kosningarinnar og úthlutun þingsæta.

Ekki er unnt að útiloka með vissu að framangreindir annmarkar hafi haft áhrif og annmarkarnir feli í sér brot á þeim ákvæðum kosningalaga sem ætlað er að tryggja að unnt sé að ganga úr skugga um rétta talningu og að almenningur geti treyst því að svo hafi verið. Verður því, í ljósi meginreglu um að með kosningum skuli lýðræðislegur vilji kjósenda leiddur í ljós, að úrskurða kosninguna ógilda og boða til uppkosningar í Norðvesturkjördæmi,“ segir í tillögu hennar.

Tekur undir með Svandísi

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í kjörbréfanefnd, er sammála Svandísi og leggur einnig til að ógilda skuli kjörbréfin í Norðvesturkjördæmi.

Í tillögu hennar segir meðal annars: „ekki hefur tekist að staðreyna að kjörgögn hafi verið varin svo fullnægjandi sé. Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að vörslur kjörgagna voru ótryggar frá því að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis gerði hlé á störfum sínum kl. 7.35 og þar til hún kom saman á ný um kl. 13.00. Ekki hefur tekist að leiða í ljós svo öruggt sé að kjörgögnin hafi á þeim tíma verið varin með þeim hætti að þau endurspegli vilja kjósenda við alþingiskosningarnar.

Í öðru lagi er ljóst að meðferð vafaatkvæða þar sem úrskurða skyldi um gildi þeirra hefur ekki verið í samræmi við ákvæði laga um kosningar til Alþingis, en bóka skal í gerðabók yfirkjörstjórnar um afgreiðslu einstakra ógildra kjörseðla og lýsingu á þeim göllum sem leiddu til þess að þeir voru metnir ógildir, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um kosningar til Alþingis. Liggja þannig ekki fyrir upplýsingar um meðferð ógildra atkvæðaseðla.

Í þriðja lagi verður að líta til þess að ekki hafa komið fram skýringar á þeim tilfærslum sem urðu á atkvæðatölum framboða eftir seinni talningu atkvæða. Er þá sérstaklega litið til þess að í kassa merktum C-lista reyndust vera átta atkvæði merkt D-lista og eitt atkvæði merkt B-lista.

Í ljósi alls þessa verður að leggja til grundvallar að ekki hafi tekist að upplýsa með fullnægjandi hætti að varðveisla kjörgagna í Norðvesturkjördæmi við alþingiskosningarnar 25. september sl. hafi verið með þeim hætti að tryggt sé að þau sýni lýðræðislegan vilja kjósenda og að annmarkar á varðveislunni hafi þar með ekki haft áhrif á úrslit kosninganna í kjördæminu.“

Vilja staðfesta síðari talningu

Formaður kjörbréfanefndar, Birgir Ármannsson, ásamt fimm öðrum nefndarmönnum leggja til að síðari talningin í Norðvesturkjördæmi standist.

„Þegar framangreind atriði eru virt í heild sinni telja undirrituð að ekki hafi komið fram vísbendingar sem gefa tilefni til að ætla að sá annmarki sem var á vörslu kjörgagna hafi haft áhrif á úrslit kosninganna í Norðvesturkjördæmi, þ.e. leitt til þeirra breytinga sem urðu á atkvæðatölum framboðslista við seinni talningu atkvæða,“ segir í tillögu þeirra.

Þá segir jafnframt að ekki verði séð að breytingarnar megi rekja til þess að þingmaður, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafi vísvitandi átt sök á annmörkum á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi.


Píratar vilja nýja kosningu á öllu landinu

Björn Leví Gunnarsson, nefndarmaður í kjörbréfanefnd fyrir Pírata, leggur til að kosningarnar teljist ógildar og að engin kjörbréf verði samþykkt.

Ef það yrði raunin yrðu kosningar að fara fram á landinu öllu aftur.