Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp sem heimilar innflutning, sölu, markaðssetningu og notkun rafrettna. Þetta kemur fram á vef Alþingis. Í frumvarpinu felst að ekki verður heimilt að nota rafrettur í þjónusturýmum stofnana og fyrirtækja, í menntastofnunum og í strætó, svo nokkrir staðir séu nefndir.

Markmiðið er jafnframt að „tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur á markmiði.“ Lögin munu gilda um rafrettur og áfyllingar á rafrettur, hvort sem þær innihalda nikótín eða ekki.

Áfyllingarnar ekki stærri en 10 millílítrar

Fram kemur í fjórðu grein að rafrettur og áfyllingar má aðeins hafa til sölu eða dreifingar ef á umbúðirnar eru skráðar viðvaranir um áhrif vörunnar á heilsu og leiðbeiningar um notkun og geymslu. Rafrettur eða áfyllingar má ekki selja börnum.

Ekki er heimilt að selja einnota rafrettur, hylki eða áfyllingar sem innihalda meira en 20 milligrömm eða milliítra af nikótínvökva. Þá má ekki selja áfyllingar fyrir rafrettur sem rúma meira en 10 millílítra af vökva. „Ekki er heimilt að selja rafrettur með áfyllanlegum tanki, einnota rafrettur eða hylki í rafrettur sem rúma meira en 2 ml af vökva.“ Þess má geta að algengt er að hylkin rúmi 3 millílítra.

Mega ekki innihalda vítamín

Fram kemur í frumvarpinu að bannað sé að flytja inn, framleiða eða selja rafrettur, hylki eða áfyllingar sem innihalda vítamín eða önnur efni sem vekja þá hugmynd að varan hafi í för með sér heilsufarlegan ávinning. Rafretturnar mega heldur ekki innihalda koffín, tárín eða önnur aukaefni og örvandi efni sem tengd eru orku og lífsþrótti. Engin litarefni mega vera í vökvanum eða efni sem auðvelda upptöku eða innöndun nikótíns. Þá má vökvinn ekki innihalda krabbameinsvaldandi efni.

Þá kemur fram að bannað sé að auglýsa rafrettur eða áfyllingar.

Samkvæmt frumvarpinu verður bannað að nota rafrettur í þjónusturýmum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, í menntastofnunum eða þar sem börn sinna félags- eða tómstundastarfi. Bannað er að nota rafrettur á heilbrigðisstofnunum, að undanskildum íbúðarherbergjum vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Bannað verður að nota rafrettur í almenningsfarartækjum og fangelsum, nema fangar hafi fengið til þess sérstaka heimild forstöðumanns. 

Frumvarpið má lesa hér.