Svandís Svavarsdóttir, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun skipa starfshóp til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum til framleiðslu á efninu eCG, frjósemislyfja handa dýrum einnig þekkt sem PMSG (pregnant mare's serum gonadotropin). Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Starfshópnum verður falið að skoða starfsemina, regluverkið í kringum hana og eftirlit, auk þess að skoða löggjöf og mögulega framkvæmd slíkrar starfsemi erlendis.

Almenningur getur komið með tillögur

Fulltrúi ráðuneytisins mun leiða vinnuna en ráðherra mun óska eftir tilnefningum í starfshópinn frá Matvælastofnun og frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fundað verður með hagaðilum auk þess sem almenningi mun gefast kostur á að tjá sig um störf og tillögur hópsins á Samráðsgátt stjórnvalda þegar þær liggja fyrir. Starfshópurinn mun hefja störf á næstu dögum.

Verkefni starfshópsins er aðskilið rannsókn Matvælastofnunar, en stofnunin rannsakar nú meint alvarleg brot á velferð blóðtökuhryssna.

MAST rannsakar meinta dýraníð gegn blóðtökuhryssum á íslenskum sveitabæjum.

Inga vill algjört bann

Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, reynir á Alþingi að fá fram bann á blóðtöku á fylfullum hryssum. Þetta er í annað sinn sem hún leggur fram slíkt frumvarp en ljóst er að málefnið nýtur mikils stuðnings almennings eftir að svissnesku dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation, AWF, birtu heimildarmynd um blóðmerahald hér á landi.

„Það er aðeins eitt sem hægt er að gera, það er að banna þetta," sagði Inga þegar hún kynnti frumvarpið á Alþingi í gær.

Evrópuþing skoðar sömuleiðis að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG. Í sjötta áherslu græna sáttmálans, Frá býli til matar, er mælt með að stöðva blóðmerahald.

Inga Sæland reyndi að banna blóðmerahald áður en þorri almennings vissi að slík starfsemi væri stunduð á Íslandi.

Ísteka heldur starfsemi sinni áfram

Ísteka, líftæknifyrirtækið sem hefur heimild til að kaupa blóð frá bændum og nýta við gerð frjósemislyfja, lýsti því yfir í gær að samningum við hluta af samstarfsbændum þeirra hafi verið rift „vegna ólíðandi meðferðar hrossa“.

Ástæðan væri myndskeið AWF sem sýndi dýraníð á tveimur blóðtökubæjum á Íslandi, væri ástæðan fyrir riftingu samninganna. Ísteka ber ábyrgð á sérstöku eftirliti með blóðtökunni sjálfri og er greinilegt að eftirlit hefur verið ábótavant ef marka má heimildarmynd AWF.

Ísteka ætla þó ekki að hætta sinni starfsemi en velta fyrirtækisins árið 2020 var 1,7 milljarðar.

Fréttablaðið hefur fjallað ítrekað um málið og má lesa ítarlega fréttaskýringu um blóðmerahald hér.