Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra taldi ekki ástæðu til að fá annan en Harald Briem, fyrrverandi sóttvarnalækni, til að vinna skýrslu um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Aðspurð hvort einhver hefði mælt sérstaklega með Haraldi segir Svandís að hún hafi ekki þurft að fá sérstaka meðmælendur. „Við ræddum það í ráðuneytinu og þetta var niðurstaðan,“ segir hún.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður Velferðarnefndar, hefur gagnrýnt harðlega ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að fá Harald Briem, fyrrverandi sóttvarnalækni, til að vinna skýrslu um skimanir fyrir leghálskrabbameini. Telur hún Harald ekki geta verið óháðan þar sem hann var sóttvarnalæknir þegar Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, var landlæknir. Kristján Oddsson, fyrrverandi yfirlæknir hjá Krabbameinsfélaginu, var aðstoðarlandlæknir á sama tíma.

Svandís gefur lítið fyrir athugasemdir Helgu Völu og telur Harald rétta manninn til að sinna þessu verkefni.

„Hann er mjög óumdeildur maður. Hann var ritari skimunarráðs og kemur að þessu á þann hátt. Landlæknisembættið er óhlutdrægt embætti og hefur það hlutverk í okkar stjórnskipan að sinna eftirliti og ráðgjöf fyrir stjórnvöld. Hann er á eftirlaunum, Haraldur Briem, svo.ég held að við hefðum ekki getað verið heppnari með mann til að fara yfir þessi mál.“

Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki valið einhvern annan, sem hafði algjöra fjarlægð frá skimunarráði, Kristjáni Oddssyni og Birgi Jakobssyni segir Svandís:

„Ég taldi ekki ástæðu til þess. Þetta snýst um að svara tilteknum spurningum um hver aðdragandinn var og hvaða ákvarðanir voru teknar. Þingið hefur alltaf aðra leið og það er að leita til Ríkisendurskoðunar. Þingið kýs að gera þetta með þessum hætti, að biðja ráðherra um skýrslu og samkvæmt þingsköpum ber ráðherra ábyrgð á skýrslunni og niðurstaðan verður að leiða í ljós hvort hún sé fullnægjandi“

Heilbrigðisráðherra sótti um fjögurra vikna frest til að skila skýrslunni. Segir hún það hafa verið nauðsynlegt til rýna í málið.

„Vegna þess að við þurftum að fara í saumana á því hvernig væri best að gera þetta og þetta var niðurstaðan,“ segir Svandís. Aðspurð hvort hún telji að skýrslan verði hafin yfir allan vafa og sátt og friður verði um málið eftir hún komi út segir hún: „Ég vona það.“