Helga Vala Helga­dóttir, for­maður vel­ferðar­nefndar stefnir að því að boða nefndina til fundar á morgun. Fyrir liggur að heil­brigðis­ráð­herra verður kvödd fyrir nefndina að kröfu fjögurra nefndar­manna.

Að sögn Helgu Völu svaraði ráð­herra fundar­boðinu nú í kvöld og er stefnt að því að hún mætir á fund nefndarinnar klukkan tíu í fyrra­málið. Þá hefur einnig verið óskað eftir því að Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, mætir á fund nefndarinnar.

Tilgangur fundarins er meðal annars að fara yfir úrskurð héraðsdóms um farsóttarhúsin, en að mati dómsins var ó­lög­mæt að skylda fólk í slík í hús.

„Það er Þór­ólfur, lög­menn, stjórn­skipunar­sér­fræðingar, sér­fræðingar í mann­réttindum, ráð­herra og sótt­varna­læknir,“ segir Helga Vala spurð um hverjir verða boðaðir á fundinn.

„Ó­heppi­legt að fara í að­gerðir án þess að hafa heimildir“

Spurð um hvernig úr­skurður Héraðs­dóm Reykja­víkur í dag horfir við henni, segir Helga Vala að niður­staðan komi henni ekki sér­stak­lega á ó­vart.

„Ég spurði ráð­herra um leið og hún til­kynnti að hún ætlaði að fara þessa leið hvort hún teldi sig hafa laga­stoð, því ég taldi svo ekki vera. En auð­vitað vonaði maður að dóm­stólar myndu finna ein­hverja smugu svo við stæðum ekki í þessum sporum. Það er mjög ó­heppi­legt þegar farið er af stað með að­gerðir án þess að hafa fyrir því heimildir,“ segir Helga Vala.

„Það er alveg á­stæða fyrir því að við setjum alls­konar hluti í lög meðal annars þegar það kemur að frelsiss­kerðingum. Þetta eru nauð­syn­legar að­gerðir en við þurfum að hafa heimild fyrir því lögunum til varnar mann­réttindum,“ segir Helga.

Helga Vala segir að aðgerðir yfirvalda séu sam­bæri­legar að­gerðum sem önnur lönd hafa verið að grípa til en þá hefur lög­gjafinn sett þau lög.

„Við þurfum að hafa heimildir í lögunum svo við lendum ekki í því að það sé geð­þótta á­kvörðun stjórn­valda hverju sinni að það sé farið í eitt­hvað sem er ekki heimild fyrir. Það er á­stæðan fyrir þessu,“