Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi rétt í þessu frá veikindum dóttur sinnar, í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Kæru vinir, nýlega greindist Una dóttir mín með heilaæxli sem reyndist vera krabbamein. Nú tekur við löng og ströng krabbameinsmeðferð. Mitt verkefni verður að styðja hana í því ferli ásamt fjölskyldu og vinum. Þetta er stærsta verkefni lífs míns.

Svandís segist ætla sinna störfum sínum áfram sem heilbrigðisráðherra með aðstoð samstarfsfólks og fjarfunda.

Hún hyggst nú skipuleggja vinnu sína í samræmi við breyttar aðstæður.

Svandís kýs að tjá sig ekki frekar um mál dóttur sinnar að svo stöddu.

Una Torfadóttir er listakona fædd árið 2000 og dóttir Torfa Hjartarsonar.

Hún var ein af höfundum atriðisins „Elsku stelpur“ sem sigraði fyrir hönd Hagaskóla í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanema árið 2015.

Í atriðinu sem vakti mikla athygli notuðust stelpur við dans og ljóðarapp til að krefjast þess að fá pláss í samfélaginu.