Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst gefa kost á sér til að leiða framboð Vinstri grænna í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara 25. september. Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni.
Í framboðsyfirlýsingunni segir Svandís að mikilvægt sé á næsta kjörtímabili að gæta að félagslegum jöfnuði og tryggja atvinnu fyrir alla eftir COVID-19 faraldurinn. Einnig megi ekki missa sjónar á því að bæta þurfi stöðu þeirra sem glíma við erfiðleika vegna faraldursins.
Hún segir að umhverfismál, málefni ungs fólks, menntunar- og jafnréttismál verði í öndvegi hjá sér í kosningabaráttunni.