Panos Cosmatos, leikstjóri spennutryllisins ágenga og sérkennilega, Mandy, og aðrir aðstandendur myndarinnar leggja sig alla fram um þessar mundir við að minna á hversu mikilvæg tónlist Jóhanns heitins Jóhannssonar er myndinni.

Í Mandy fer Nicholas Cage blóðugum hamförum og gengur milli bols og höfuðs á illmennum í miklum hefndarleiðangri. Myndin er ekki síst sögð sækja áhrifamátt sinn í tónlistina og undirtónana sem veki á víxl óhug og undur í jafn stórum skömmtum.

Kvikmyndavefurinn IndieWire segir tónlistina við Mandy vera einhverja albestu kvikmyndatónlist þessa árs, hlaðin tilfinningum og tregafullum tónum sem beri margslunginni sýn Jóhanns glöggt vitni.

Jóhann lést í febrúar, aðeins 48 ára gamall, skömmu eftir að Mandy var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni.

Myndin hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli og hefur þegar náð svokölluðum „költ status“ og í kjölfarið hafa aðstandendur myndarinnar lagt sig fram um að minna á mikilvægan þátt Jóhanns og þau áhrif sem hann hafði myndina.

Tónlistin hefur til að mynda verið gefin út á vínýl í nokkrum mismunandi útgáfum sem draga enn frekar fram dýpt þess hljómheims sem Jóhann skóp utan um myndina. Þarna á meðal er hið magnaða lag Children of the New Dawn sem rataði ekki í endanlega útgáfu myndarinnar.

„Ég var virkilega ánægður með framlag hans, en mér fannst einnig á vissan hátt eins og við værum rétt byrjaðir að klóra í yfirborð þess sem við gætum gert saman,“ segir Cosmatos við IndieWire. „Ég hlakkaði virkilega til þess að starfa með honum áfram og ganga enn lengra.“

Leikstjórinn segir að í gegnum samstarf þeirra hafi „fjölskyldutengsl“ hafi myndast milli þeirra og að honum hafi fundist hann verða náin Jóhanni á „undarlegan hátt.“

Hann segir Jóhann hafa minnst sig dálítið á föður sinn, leikstjórann George Pan Cosmatos, sem gerði til að mynda Rambo: First Blood Part II og Tombstone. „Hann var harður á yfirborðinu en þegar maður fór að eyða tíma með honum áttaði maður sig á að hann var mjög tilfinninganæmur og hugulsöm manneskja. Vinskapur okkar var rétt að byrja.“