Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa í vörslu sinni tæp 12 kíló af maríjúana, rúmlega tvö og hálft kíló af kannabislaufum, 382 grömm af kannabisstönglum, 55 kannabisfræ og 405 kannabisplöntur.

Er maðurinn ákærður fyrir að hafa staðið að ræktun ofangreindra efna í tveimur íbúðum í húsi í Reykjavík og í atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði síðastliðið sumar og ætlað þau til sölu og dreifingar.

Í ákæru er einnig krafist upptöku á öllum þessum fíkniefnum, tveimur Samsung GSM-símum og búnaði til ræktunar, þar á meðal 40 lömpum, 30 viftum, þremur vatnsdælum og tveimur ljósum, sextán loftsíum, gróðurhúsalampa, 77 vökvunarbotnum undan blómapottum, sex ræktunartjöldum, sjö stillirofum fyrir loftræstikerfi, ljósastýringarborði, átta grænum brúsum með ýmsum vökva, loftblásara, fimm pumpum, eftirlitsmyndavél og netþjóni.

Þá er loks krafist í ákæru upptöku á 53.000 krónum í reiðufé og rúmum tveimur milljónum, sem haldlagðar voru af bankareikningi í eigu ákærða, sem talinn er vera ágóði af sölu fíkniefna.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir ræktun á kannabisefnum hafa verið töluvert mikla og stöðuga allt frá hruni. Á sama tíma hefur innflutningur á hassi nær alveg horfið, en grasið kemur inn á markaðinn í staðinn.

„Það sem okkur hefur fundist núna undanfarið er að ræktanirnar hafi verið að stækka, frekar en að þeim hafi fjölgað,“ segir Grímur.

Aðspurður um mögulegan útflutning efnanna segir Grímur að það hafi verið til skoðunar. „Okkur hefur fundist töluvert mikið um ræktun og þess vegna verið að velta vöngum um hvort neyslan sé svona svakalega mikil eða hvort þetta sé til útflutnings,“ segir Grímur, en vill ekki fara nánar út í hvernig þær rannsóknir standa hjá lögreglunni.

Aðeins einn er ákærður í því máli sem fjallað er um hér að framan. Aðspurður segir Grímur að oft standi fleiri að þessari ræktun í félagi. Í sumum tilvikum reynist þó ekki unnt að finna alla sem talið er að tengist ræktun. Í einhverjum tilvikum fái fleiri réttarstöðu sakbornings undir rannsókn máls en þeir sem eru að lokum ákærðir.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Ríkislögreglustjóra fyrir síðasta ár var þyngd kannabisplantna sem haldlagðar voru það ár rúmlega 27 kíló, en það er rúmlega 213 prósenta hækkun frá árinu 2019 þegar um tólf kíló var að ræða. Tölur um haldlagt magn kannabisefna á þessu ári liggja ekki fyrir.