„Þetta var fín nótt. Maður fann titringinn öðru hverju en ég hef upplifað ýmislegt á fjöllum með allskonar fárviðrum sem hafa skekið tjaldið. Þá sefur maður miklu verr,“ segir Árni Tryggvason, sem var ekki á þeim buxunum að missa af skjálftafjöri næturinnar og vippaði sér með tjald og búnað upp Grænudyngju þar sem hann lagðist til hvílu – ef hvílu skyldi kalla.

Margir komu þreyttir til vinnu í gær eftir skjálftanótt á Reykjanesskaga þar sem fjölmargir skjálftar mældust, sá stærsti fimm á Richter. Jörðin lék á reiðiskjálfi við Reykjanesið en 18 skjálftar mældust yfir þrír á Richter samkvæmt heimasíðu Veðurstofunnar.

Þegar Árni gekk til baka fór hann lengri leið heim og fór að Grænavatnseggjum þar sem hann sá nýjar sprungur og sums staðar jarðfall, þar sem jörðin hafði gleypt örlítinn hluta af sjálfri sér.
Fréttablaðið/Aðsend

Á öruggum stað með fallegt útsýni

Árni hafði það þó fínt og kom sér fyrir á öruggum stað með fallegu útsýni yfir borgina. „Eflaust eru einhverjir sem fussa og sveia yfir þessu en við eigum bara þetta eina líf,“ segir hann. „Ég vissi að ekkert væri að fara að hrynja á mig eða yfir mig.

Ég var ekkert beint undir klettum, með gott rými á milli og með fallegu útsýni yfir borgina. Þetta er gríðarlega heillandi staður og mikið ævintýralandslag.“

Vaggaði eins og bátur

Hann segir að svæðið í hlíðum Grænudyngju sé vanmetið svæði en eini ókosturinn sé að þar sé engin lækjarspræna og því þurfi að ferja vatn í bakpokanum. „Þetta er staður sem ég gekk um fyrir mörgum árum þegar mátti veiða rjúpu þarna og hugsaði með sjálfum mér að þarna væri gaman að prófa að tjalda. Svo var þessi helgi komin og ég í bænum og ákvað að drífa mig af stað.“

Hann segir það ákveðna spennu að fara um svæðið og það sé einstakt að upplifa jarðskjálftana í svona mikilli nálægð. „Ég settist eitt sinn á stein til að kasta mæðinni og þá kom góður kippur og steinninn sem ég sat á vaggaði eins og bátur. Það var frábær stund.

Maður heyrir stóru skjálftana koma. Það heyrast drunur í klettunum og þá hugsar maður að einn stór sé að koma sem gerist svo tveimur sekúndum síðar,“ segir Árni.