Ég er að byrja aftur að stinga út höfðinu og prófa nýja brandara sem ég hef verið að semja undanfarna mánuði. Ég hef verið meira og minna í leyfi eins og margir og var bara svo spenntur þegar fór að lifna yfir öllu og ákvað að kýla á þetta,“ segir Ari en sýningin er eins konar tækifæri til að kíkja inn á verkstæði uppistandarans og aðstoða hann við að fínpússa grínið.

„Þetta er glænýtt efni, sumt er lesið af blöðum og annað samið á staðnum. Sumt virkar og sumt ekki. Í einum hlutanum getur salurinn svo komið með tillögur að efni.“

Ari segist yfirleitt hafa verið með slíkar tilraunasýningar á haustin en í ljósi aðstæðna á fordæmalausum tímum hafi hann flýtt sýningum sem hefjast í kvöld, laugardag. „Enda er svo mikið búið að gerast í ár að ég held að það þýði ekkert að bíða með þetta.“


Hendir því sem ekki virkar


Eins og fyrr segir er um að ræða efni sem enn er í vinnslu og segist Ari óragur við að henda því sem ekki kitlar hláturtaugar gesta. „Ef það virkar ekki eftir að hafa prófað það aðeins þá bara hendir maður því og gleymir. Maður gerir upp á milli barna sinna þarna,“ segir Ari ákveðinn.

Hitt verkefnið sem á hug Ara þessa dagana er vínylplatan Eagle Fire Iron, sem er til sölu á Kickstart­er. „Klúbburinn sem ég skemmti alltaf á, í Edinborg og er aðalgrínklúbbur borgarinnar, Monkey Barrell eða Apatunnan, gefur plötuna út. Þeir eru eins og allir í bransanum í Bretlandi með lokað og líklega verður það þannig út árið. Það er til að mynda búið að blása Edinborgarhátíðina af þar sem ég átti að vera ásamt fjögur þúsund öðrum grínistum.

Gefur út sína fyrstu vínylplötu


Eigendur staðarins brugðu því á það ráð að gefa út vínylplötur með upptökum af síðustu hátíð til að styðja við starfsemina. Ein platan er sem sagt með upptöku af enska settinu mínu frá því í fyrra. Þetta er í gangi á Kickstarter eins og er og þar má kaupa hvíta vínylplötu ásamt stafrænu niðurhali.“

Listamennirnir deila ágóðanum af plötusölunni jafnt með klúbbnum og það er augljóst að Ara rennur blóðið til skyldunnar. „Þau veðjuðu á mig á sínum tíma og gáfu mér fyrsta tækifærið í Edinborg og nú þegar allt er lokað vil ég hjálpa þeim eins og ég get.“

„Þau veðjuðu á mig á sínum tíma og gáfu mér fyrsta tækifærið í Edinborg og nú þegar allt er lokað vil ég hjálpa þeim eins og ég get.“

Platan ber heitið Eagle Fire Iron sem glöggir kannski átta sig á að er enskun á nafni Ara og geta áhugasamir leitað hana uppi á heimasíðu Kickstarter.

„Þrjár plötur eru til sölu á síðunni og er val um að fá allar þrjár eða velja eina. Hinar plöturnar eru með grínistanum John Kearns, þeim eina sem hefur unnið bæði aðalverðlaunin á Edinborgarhátíðinni og Olgu Koch, rússneskum uppistandara sem treður upp á ensku eins og ég. Við erum fyrstu þrír uppistandararnir sem gefum út hjá Monkey Barrell Records sem hyggur á stóra hluti í bresku grínsenunni.“


Sóaði samkomubanninu


Aðspurður segist Ari ekki hafa nýtt samkomubannið rosalega vel.

„Ég setti upphaflega á mig alltof mikla pressu um að koma sterkari, klárari og betri út úr þessum tíma en nokkru sinni fyrr. En svo sóaði ég eiginlega bara þessu samkomu­banni í að slaka á og ég held að það hafi eiginlega verið það besta sem ég gat gert. Ég kem alla vega ekki útbrunninn út úr því. Fyrsta mánuðinum eyddi ég eiginlega í að hafa áhyggjur af því að vera ekki að nýta tímann nægilega vel. Svo ákvað ég bara að reyna að slaka á og sofa almennilega,“ segir Ari og segir svefninn hafa batnað til muna.

„Þetta er allt að koma og segja má að samkomubannið hafi breytt mér í A-manneskju.“

Vanalega er Ari í fríi í júnímánuði og því er þessi júní óvanalegur að mörgu leyti. „Mars er vanalega tíminn sem ég er með fimm til sex gigg í viku en í ár voru þau engin í mars og apríl, fyrir utan einhver net-gigg. Júní verður spes í ár – þó það sé mikið frí þá er fólk líka rosa mikið að gera það sem það átti inni.“

Tilraunasýningarnar verða í Tjarnarbíó eins og fyrri ár og eru þær eins og fyrr segir farnar í sölu á tix.is. „Tjarnarbíó hefur verið minn heimavöllur fyrir þessar tilraunasýningar og þar er alltaf rosalegt fjör. Þetta er þægilegur salur sem er lítill en samt mjög stór,“ segir Ari að lokum.

Þeir sem vilja nálgast plötuna geta gert það í gegnum Kickstarter: