Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt karlmann í miðbæ Reykjavíkur sem svaf á stigagangi. Maðurinn var fluttur á lögrelustöðina við Hverfisgötu þar sem rætt var við hann og var honum í framhaldinu sleppt. 

Þetta kemur fram í fréttapósti frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem á nokkuð annasama nótt að baki. Í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu í Hafnarfirði vegna konu sem var í annarlegu ástandi fyrir utan fjölbýlishús. Eftir að sjúkralið skoðaði konuna var hún aðstoðuð heim til sín. Tilkynnt var um rúðubrot í Breiðholtinu, bæði í bíl og í íbúðarhúsnæði. 

Þá var tilkynnt um innbrot í Vogunum þar sem tölvubúnaði var stolið ásamt því að unnar voru talsverðar skemmdir innandyra. Þjófurinn er enn ófundinn. Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í Breiðholti, þar sem maður var sagður ganga inn og lýsa inn í bíla, en hann fannst ekki. 
Að lokum stöðvaði lögregla nokkra ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Eitt minniháttar umferðaróhapp varð.