Pétur Sigurðsson fasteignasali er búsettur í Orlandó í Flórída þar sem fellibylurinn Ian gekk yfir í gærkvöldi og í nótt. Eyðileggingin er mikil í kjölfar hans en honum fylgdu mikil flóð.

„Núna er eins og sjómennirnir kalla það, kaldaskítur og rigning. Síðasta sólarhringinn hefur rignt hjá okkur um 50 sentímetrum,“ segir Pétur og að hann og kona hans séu það lánsöm að vera í nýju hverfi og að þar sé fráveitukerfið gott en að rétt fyrir utan þeirra hverfi hafi björgunarsveitarmenn á bátum verið að bjarga fólki frá bílum sínum sem þeir höfðu ekið í kaf.

„Svæði sem liggja lágt, þau eru á floti.“

Mynd/Aðsend

Spurður hvernig þetta hafi verið í nótt segir Pétur að hans mati hafi þau sloppið nokkuð vel en fellibylurinn beygði lengra til suðurs en talið var í fyrstu að hann myndi gera.

„Þetta var eins og góð haustlægð á Íslandi og hávaði og rigning.“

Pétur starfaði áður í hjálparsveit Skáta og segir að það hafi verið áhugavert að fylgjast með viðbragðsaðilum undirbúa sig í gær en víða hafði aðföngum verið komið fyrir, körfubílum, mat og öðru.

„Þetta er alveg ótrúlegt,“ segir hann en hér að neðan og ofan má sjá myndir sem Pétur tók í dag.

Mynd/Aðsend
Það flæðir víða á götum.
Mynd/Aðsend
Þarna er eins og nýtt stöðuvatn hafi myndast.
Mynd/Aðsend

Tvær milljónir voru án rafmagns í Flórída þar sem fellibylurinn Ian gekk yfir í gærkvöldi og í nótt. Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, lofaði í gær að Flórídabúum yrði veitt öll sú aðstoð sem þeir myndu þurfa og yfirmaður almannavarna sagði að neyðaraðstoð og birgðum hefði þegar verið komið fyrir á vettvangi.