Bíllinn er búinn sömu 2,5 lítra bensínvél og RAV4 ásamt CVT sjálfskiptingunni og skilar hún 183 hestöflum. Að framan er 180 hestafla rafmótor fyrir framdrifið og að aftan 54 hestafla mótor fyrir afturdrifið. Suzuki hefur ekki gefið upp samanlagt afl en RAV4 PHEV skilar samanlagt 302 hestöflum og búast má við sömu tölu frá A-Cross. Undir bílnum er 18,1 kWst rafhlaða sem á að skila allt að 75 km drægi á rafmagninu einu saman. CO2 gildi bílsins er aðeins 22 grömm á kílómeter svo að aðflutningsgjöld verða lág, en ekki er búið að tilkynna verð á bílnum þegar hann kemur.

Um vel búinn bíl verður að ræða í Suzuki A-Cross. Má þar meðal annars nefna 9 tommu snertiskjá með Apple CarPlay og Android Auto. Fjórhjóladrifið með rafmótorunum verður fullkomið að gerð og getur dreft aflhlutföllum frá 100:00 yfir í 20:80. Hann verður með svokölluðu Trail Mode sem að á að hjálpa honum við erfiðari aðstæður, til dæmis í hálku en þá notar bíllinn bæði ABS bremsukerfið og rafmótorana til að senda aflið þar sem þess er þörf. Meðal annars búnaðar má nefna umferðamerkjalesara, skynvæddan hraðastilli, árekstrarvörn og veglínuskynjara.

Að innan er bíllinn nánast eins og RAV4 og þá einnig í búnaði og með sama níu tommu snertiskjánum efst í miðjustokki.